Fréttir

23.6.2010

Á skörinni | Sýning hjá Ullarselinu Hvanneyri



Ný sýning hefur verið opnuð á Skörinni hjá HANDVERKI OG HÖNNUN, Aðalstræti 10, Reykjavík. Þar sýnir Ullarselið á Hvanneyri einstaklega fallegt handspunnið band og jurtalitað.

Ullarselið á Hvanneyri er verslun og vinnustofa áhugafólks af Vesturlandi um ullariðn, þar sem gömul vinnubrögð við ullarvinnslu eru notuð. Í Ullarselinu er handverkið haft í hávegum. Meðal annars er kembt, spunnið, prjónað, flækt, ofið og spjaldofið.

Sýningin stendur til 12. júlí n.k. og er opin sem hér segir:
Virka daga kl. 9 – 21, laugardaga 10 – 17 og sunnudaga 12 – 17.

Í Ullarselinu á Hvanneyri er til sölu gæðahandverk sem hefur farið í gegnum strangt gæðamat og er eingöngu úr íslensku hráefni. Flíkur, þæfðar, prjónaðar, heklaðar, húfur, vettlingar, sokkar, peysur, töskur, sjöl, treflar, kjólar og pils svo eitthvað sé talið.  Tölur og skart úr horni og beini.  Útsaumsvara er einnig til sölu.  Ekki má gleyma prjónabókum og blöðum. Band frá Ístex og að sjálfsögðu handspunnið band sem félagar hafa spunnið.

Ullarselinu á Hvanneyri var komið á fót haustið 1992, sem þróunarverkefni, að tilstuðlan Bændaskólans á Hvanneyri, Búnaðarsamtaka Vesturlands og Kvenfélagasambandanna á Vesturlandi.

Ullarselið er opið á sumrin alla daga frá kl. 12:00-18:00.
















Yfirlit



eldri fréttir