You Are In Control : Skapandi í stafrænum heimi - Högnumst á samvinnu
Alþjóðleg ráðstefna,
You Are In Control, verður haldin í fjórða sinn í Reykjavík dagana 1. og 2. október næstkomandi. Rýnt verður í þróun og tækifæri í stafrænum viðskiptamódelum ásamt því að skoða samlegðaráhrif mismunandi listforma.
Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, Hönnunarmiðstöð Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Kvikmyndamiðstöð Íslands og
IGI standa að ráðstefnunni. Stafræn framtíð felur í sér nýsköpun og atvinnutækifæri. Þau sem taka þátt í umræðunni um hvernig best sé að fóta sig í þessum heimi eru líklegri til að vera í fararbroddi þegar tækifærin birtast.
You Are In Control sameinar þá sem starfa í skapandi greinum, markaðsfólk og útgáfufyrirtæki á samvinnuþýðan máta og auðveldar því þátttakendum að læra af öllum skapandi greinum. Aðalfyrirlesarinn frá því í fyrra, stofnandi
IDEO, Paull Bennett segir, "Það er útilokað að verða ekki uppgötvaður. Allir hafa getuna til þess að senda út efni sem aldrei fyrr. Nú geta allir varpað hugmyndum sínum fram í gegnum ótal boðleiðir. En það ferli snýst einungis um eitt: samvinnu."
Miklar breytingar eiga sér nú stað í menningarmiðlun um heim allan. Tala þeirra sem neyta og njóta alls kyns menningarafurða eykst dag frá degi – í réttu hlutfalli við minnkandi sölutölur á áþreifanlegum afurðum. Stafræn dreifing, höfundaréttur og fjárfestingar kalla á nýjan hugsunarhátt, nýja viðskiptahætti og nýjar leiðir í útgáfu, dreifingu og markaðssetningu. Um leið eru að mótast ný viðskiptamódel þar sem tölvuleikir koma sífellt meira við sögu í dreifingu á fötum, tónlist og jafnvel kvikmyndum.
You Are In Control kannar svör við flóknustu spurningum stafrænna viðskipta: Hvernig getum við stækkað kökuna svo að allir fá sína sneið? Hvað sameinar hönnun, tónlist, kvikmyndir og tölvuleikjaframleiðslu? Hvar skarast viðskiptamódel og hvað mun framtíðin bera í skauti sér?
Þegar hefur fjöldi virtra og góðra gesta staðfest þátttöku sína á ráðstefnuna, þar á meðal Yancey Strickler frá
Kickstarter, Benji Rogers frá
PledgeMusic.com og Christopher Peterka, stofnandi ráðgjafafyrirtækisins
Gannaca.
Þátttakendum gefst kostur á að efla tengslanet sitt á ráðstefnunni og taka skref í átt að framkvæmd hugmynda, auk þess að deila reynslu.
You are in Control fer fram á Hilton hótelinu. Skráning er þegar hafin á www.youareincontrol.is og er ráðstefnugjald fyrir þá sem skrá sig fyrir 31. júli 20.000 krónur. Innifalið í ráðstefnugjaldi er aðgangur að öllum pallborðum og kynningum og þátttaka í vinnusmiðjum, hádegisverður báða dagana og kaffiveitingar. Eftir það er gjaldið 30.000 krónur eða 190 evrur fram til 31. september. Þeir sem skrá sig við inngang greiða 40.000 krónur. Það er því mikilvægt að skrá sig sem fyrst. Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á
www.youareincontrol.is og hjá Líney Arnórsdóttur, markaðs- og kynningarstjóra, liney@icelandmusic.is, s. 849 0573.