Nú þegar
Hönnunarsafnið flyst yfir á Garðatorg 1 í Garðabæ í lok mánaðarins fær safnið á sama tíma
nýja ásýnd með nýju merki sem hannað var sérstaklega af Ámunda Sigurðssyni grafískum hönnuði sem hefur unnið að
myndrænu útliti safnsins.
„Ég lagði áherslu á að draga fram táknræna mynd af safninu. Annars vegar vildi ég ná fram því hlutverki sem safnið hefur, það er að safna munum frá ólíkum tímabilum og varðveita komandi kynslóðir hönnunar og hins vegar að hlutgera í merkinu sjálfu ákveðna mynd af húsgagni eða grunnformi sem hönnun byggir á. Þegar vinnan hófst við merkið, byrjaði ég með form stólsins.“ segir Ámundi um hugmyndafræðina á bak við nýja merkið.
Harpa Þórsdóttir forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands er ánægð með nýtt merki sem táknar einnig nýtt tímabil í sögu safnsins. "Hringurinn er þekkt tímatákn, sérstaklega sem tákn um hringrás tímans. Hringrásin í merkinu býr til nýtt lag, nýtt tímabil sem byggir upp safnið til framtíðar.
Eins má skoða merkið sem mynd af stól með einfaldri grind og hringlaga baki. Stólar eru meðal algengustu gripa á hönnunarsöfnum og Hönnunarsafn Íslands er þar ekki undanskilið."
Hönnunarsafn Íslands opnar fyrir gesti föstudaginn 28. maí og er opnunartíminn frá kl. 12.00 - 17.00 þriðjudaga - sunnudaga.