Fréttir

21.5.2010

Vorúthlutun úr Hönnunarsjóði Auroru


 
 
Vorúthlutun Hönnunarsjóðs Auroru fór fram miðvikudaginn 19. maí sl. Þetta var önnur úthlutun þessa árs og sú fjórða frá því sjóðurinn var stofnaður fyrir rétt rúmu ári síðan, þann 13.febrúar 2009.

Ákveðið var að hafa þrjár úthlutanir á þessu ári til þess að koma til móts við hraða verkefna í faginu en sú fyrsta fór fram 17. febrúar sl. þar sem 7.880.000 kr. var úthlutað.

Nú var úthlutað 4.000.000 kr. Þar með hefur um 33.000.000 kr. verið úthlutað til um 25 hönnuða og verkefna frá því Hönnunarsjóðurinn hóf starfsemi sína. Sjóðurinn hefur leitast við að styrkja hönnuði með heilsteypta viðskiptahugmynd og skýra framtíðarsýn með það í huga að stuðningur sjóðsins hafi afgerandi áhrif í ferli viðkomandi hönnuðar í átt til frekari fjármögnunarmöguleika og/eða sjálfbærni. Í því samhengi hefur verið stefna hjá Hönnunarsjóðnum að veita hönnuðum einnig ráðgjöf í viðskiptum, eftir því sem við á.

Þeir sem hlutu styrk að þessu sinni voru Hreinn Bernharðsson til starfsreynslu hjá Hrafnkeli Birgissyni, Hafsteinn Júlíusson til vöruþróunar og markaðssetningar erlendis á vörulínu sinni HAF, Sigríður Sigurjónsdóttir til sýningahalds í SPARK design space, Una Hlín Kristjánsdóttir hlaut styrk til viðskiptaráðgjafar með fatamerki sitt Royal Extreme og Hönnunarsjóðurinn mun veita viðurkenningar í fatahönnunarsýningu LungA, listahátíð ungs fólks í sumar.

Hönnunarsjóður Auroru hóf starfsemi sína þann 13. febrúar 2009 og síðan þá hefur um 33.000.000 kr. verið úthlutað til um 25 hönnuða og verkefna. Meðal þeirra sem sjóðurinn hefur styrkt og starfað með má nefna Andreu Maack, Bóas Kristjánsson, Charlie Strand, Dagnýju Bjarnadóttur, Jón Björnsson, Hrein Bernharðsson, Hörð Lárusson, Hugrúnu Árnadóttur og Magna Þorsteinsson, Gunnar Þ. Vílhjálmsson, Guðrúnu Lilju Gunnlaugsdóttur, Katrínu Ólínu, Kristrúnu Thors, Lindu Björg Árnadóttir, Laufeyju Jónsdóttur, Sonju Bent, Söru Maríu Júlíudóttur, Snæbjörn Stefánsson, Unu Hlín Kristjánsdóttur auk samstarfs við Hafnarborg og Hönnunarmiðstöð Íslands. Hönnunarsjóðurinn er stoltur bakhjarl og samstarfsaðili allra þessara verkefna.

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Hönnunarsjóði Auroru
















Yfirlit



eldri fréttir