Fatahönnunarsýning LungA 2010
Í tilefni af 10 ára afmæli LungA verður fatahönnunarsýning hátíðarinnar sérstaklega glæsileg. Í ár köllum við eftir umsóknum ungra og efnilegra hönnuða og verða 10 hönnuðir valdir til að sýna á sýningunni, en tveir þeirra fá sérstaka viðurkenningu frá Hönnunarsjóði Auroru. Sýningin fer fram fimmtudagskvöldið 15. júlí og hefur hún verið einn stærsti viðburður LungA síðustu ár en hundruðir manns sækja sýninguna ár hvert. Fyrir hönd LungA munu Sigrún Halla Unnarsdóttir, fatahönnuður og meðlimur í skipulagsráði LungA og Ásta Guðmundsdóttir fatahönnuður varaformaður fatahönnunarfélag Íslands sjá um að velja hönnuði úr innsendum umsóknum.
Að þessu sinni velur Hönnunarsjóður Auroru tvo þátttakendur sem fá viðurkenningu á formi persónulegrar ráðgjafar í takt við óskir hönnuðanna sjálfra. Þetta getur verið allt frá markmiðasetningu yfir í aðstoð við stofnun fyrirtækis, markaðssetningu eða ráðgjöf varðandi framleiðslu eða önnur tæknileg atriði. Með þessu vill LungA ásamt Hönnunarsjóði Auroru styðja við bakið á upprennandi hönnuðum. Sérstök áhersla verður lögð á fjölbreytni og sköpunargleði við val á hönnuðum auk þess að horfa til ungra og upprennandi hönnuða. Engin eiginleg skilyrði eru sett til umsóknar. Hver hönnuður fær 3 - 6 innkomur til ráðstöfunnar á sýningunni. Umsóknirnar eiga að innihalda myndir af verkum, ferilskrá og auk þess grófa lýsingu af hugmynd hönnuðarins fyrir Hönnunarsýningu LungA.
Umsóknarfrestur er 15.-28. maí og sendist á rafrænu formi á
lunga@lunga.is en þar er einnig hægt að nálgast frekari upplýsingar.
lunga.is