Brussel 7. maí 2010.
“Slepptu ímyndunaraflinu lausu gegn fátækt” er þema auglýsingasamkeppni sem Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Brussel (UNRIC) kynnti í dag í Brussel. Keppnin sem nær til allra Evrópulanda hefur að markmiði að kynna Þúsaldarmarkmiðin um þróun (MDGs).
Hjarta keppninnar er vefsíðan
www.wecanendpoverty.eu. Keppnin er opin öllum íbúum Evrópuríkja, jafnt fagmönnum sem áhugamönnum sem hafa áhuga á að berjast gegn fátækt. Þeir eru hvattir til að taka þátt í keppninni með því að skila inn einnar síður auglýsingu til birtingar í dagblaði.
Sigurvegarinn fær 5.000 Evrur í verðlaun frá spænsku ríkisstjórninni við sérstaka verðlaunaafhendingu í Madrid í byrjun september, skömmu fyrir leiðtogafund aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um Þúsaldarmarkmiðin í New York.
Ráðherra alþjóðlegrar samvinnu í spænsku ríkisstjórninni, Soraya Rodriguez Ramos segir að það sé eitt forgangsmála Spánar, sem forysturíkis Evrópusambandsins nú um stundir, að Þúsaldarmarkmiðunum verði náð fyrir 2015. “Þetta snýst um að auka skilning Evrópubúa á að þessi markmið nái til allra og þessi keppni er góð aðferð til að fylkja liði,” bætti hún við.
Keppnin er opin öllum evrópskum borgurum og íbúum evrópskra ríkja, en allir, hvar sem þeir eru búsettir, geta greitt atkvæði um bestu auglýsinguna. Keppnin stendur yfir til loka júní 2010, en þá verða valdar 30 auglýsingar sem keppa til úrslita. 15 verða valdar af almenningi en 15 af skipuleggjendum. Sigurvegarinn verður svo valinn úr hópi þessara þrjátíu af dómnefnd skipaðri þekktum evrópskum sérfræðingum í auglýsingum og markaðssetningu, auk listamanna, hönnuða og sérfræðinga SÞ.
“Ef þetta frumkvæði verður til þess að hífa aðeins eina manneskju upp úr sárustu fátækt, þá er það þessi virði,” segir dómnefndarmaðurinn og bandaríski ljósmyndarinn Gary Knight. Formaður dómnefndarinnar er franski auglýsingafrömuðurinn Jacques Séguéla, varaformaður stjórnar alþjóða-auglýsingafyrirtækisins Havas en auk hans sitja í henni hönnuðurinn Piet Boon, belgíski tískuhönnuðurinn Martin Margiela og aðtoðarfamkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Kyo Akasaka.
Hægt er að fá nánari upplýsingar - þar á meðal keppnisreglur – og skila inn framlögum í keppnina á vefsíðunnni
www.wecanendpoverty.eu. Einnig má hafa samband við Afsané Bassir-Pour
bassirpour@unric.org í síma 00 32 2 788 84 50 eða Árna Snævarr
snaevarr@unric.org í síma 00 32 788 84 67.