Fréttir

10.5.2010

Hönnun og nýsköpun í Finnlandi

Höfundar: Dennis Davíð Jóhannesson og Hjördís Sigurgísladóttir arkitektar.

Finnland er þjóðfélag arkitektúrs og hönnunar

Hönnun hefur mótað menningu og efnahagslíf Finnlands frá seinni hluta 19. aldar og fram á daginn í dag. Í því ferli hefur arkitektúr og hönnun orðið óaðskiljanlegur hluti af sjálfsmynd og alþjóðlegri ímynd lands og þjóðar. Saga finnskrar hönnunar er talin hefjast um 1870 og er samofin þjóðernisvakningu Finna en þá var Finnland sjálfsstjórnarsvæði innan rússneska keisaradæmisins. Á þessum tíma hófst iðnvæðingin sem leiddi til eflingar efnahagslífsins og alþjóðlegra samskipta. Settar voru á laggirnar þrjár stofnanir og félög sem höfðu mikla þýðingu fyrir þróun hönnunar í Finnlandi. Þessar stofnanir eru í dag Lista- og hönnunarháskólinn í Helsinki, sem er nú hluti af hinum nýja Aalto University, hönnunarmiðstöðin Design Forum Finland og hönnunarsafnið Design Museum.   

Vasar eftir Alvar Aalto
 
Hönnun og arkitektúr Finna er þekktur víða um lönd og ber þar hæst verk arkitektsins Alvar Aalto, sem hannaði ekki aðeins byggingar heldur einnig  húsgögn, lampa og glervasa en þessar vörur eru enn framleiddar og seldar um víða veröld löngu eftir að þær voru upphaflega hannaðar. Flestir Íslendingar þekkja einnig  Nokia farsímana, en þar fer saman fáguð iðnhönnun og hátækniþekking. Ótal fleiri dæmi mætti nefna og nú eru iðnhönnunarvörur 25% af heildarútflutningi Finna. Í dag snýst hönnun ekki aðeins um arkitektúr og vöruhönnun heldur einnig  markaðssetningu og samskipti, vef- og viðmótshönnun svo og hönnun vörumerkja og þjónustu.  
 
Helsinki hefur nýlega verið útnefnd Heimsborg hönnunar árið 2012 af alþjóðlegu hönnunarsamtökunum Icsid. Þetta er viðburður sem haldinn er annaðhvort ár og er viðurkenning fyrir verðleika og árangur á sviði hönnunar. Viðburðurinn felst í því að sýna hvernig Helsinki
 
hefur notað hönnun til að bæta félagslegt, menningarlegt og efnahagslegt líf borgarbúa. Borgarstjórinn í Helsinki, Jussi Pajunen, bendir á að hönnun hafi umtalsverða þýðingu á breiðu sviði. „Markmiðið er að þróa borgina og auka lífsgæðin. Hugmyndafræði hönnunar er t.d. hægt að nýta til þess að endurskipuleggja þjónustugeirann. Grunngildi góðrar hönnunar er að hún sé notendavæn, sjálfbær og hafi þægileg áhrif.“
 
Í apríl 2010 voru höfundar þessarar greinar staddir í Helsinki til að kynna sér stöðu hönnunar og nýsköpunar í Finnlandi og hvernig Helsinki hefur tekist að ná þeim
 
Finnski skálinn í Expo 2010.  Arkitektar: JKMM
árangri að verða valin Hönnunarborg heimsins 2012. Þeir heimsóttu m.a. hönnunarmiðstöðina Design Forum Finland, hönnunarsafnið Design Museum, arkitektúrsafnið Museum of Finnish Architecture og hinn nýstofnaða Aalto University og Aalto Design Factory. Þar áttu þeir langt samtal við Dr. Pekka Korvenmaa, aðstoðarrektor hins nýja háskóla en hann hefur m.a. skrifað hönnunarsögu Finnlands, sem er nýkomin út. Höfundar heimsóttu einnig teiknistofuna JKMM og ræddu við einn eigenda stofunnar Samuli Miettinen. JKMM vann samkeppni um finnska skálann í Expo 2010 í Shanghai en þar er áherslan á finnska hönnun og nýsköpun. Þessi grein byggist að verulegu leiti á þessum samtölum og heimsóknum í hönnunarmiðstöðina, hönnunarsöfnin tvö og Aalto University sem getið er hér að framan.
 

Aalto University og Aalto Design Factory

Þýðingarmesta og áhrifaríkasta aðgerð til að efla hönnun í Finnlandi var stofnun Hönnunar- og  handverksskólans árið 1871 en þjálfun og menntun  var forsenda þess að fagmennska gæti þróast á sviði handverks og hönnunar. Skólinn stækkaði og seinna varð hann að Lista- og hönnunarhákólanum í Helsinki. Hann byggir á góðum gildum þar sem fagurfræði skipar stóran sess. Skólinn er talinn vera einn af bestu lista- og hönnunarskólum í heimi. Á sama tíma hófst nám í arkitektúr við Tækniháskólann í Helsinki. Í upphafi ársins 2010 voru Tækniháskólinn, Lista- og hönnunarháskólinn og Viðskiptaháskólinn sameinaðir. Nýi háskólinn heitir Aalto University.  Hér er verið að rjúfa aðskilnað þessara skóla og gefa þvagfaglegri starfsemi á sviði hönnunar, lista, tækni og viðskipta tækifæri til að vinna betur saman. Að sögn Pekka Korvenmaa er þetta ein mesta breyting sem orðið hefur á sviði finnskrar hönnunar frá upphafi og verður spennandi að fylgjast með hver árangurinn verður.  

Þegar hefur verið komið á fót 3000 m2 hönnunar- og nýsköpunarsmiðju sem heitir Aalto Design Factory.  Þar geta nemendur, kennarar og rannsóknarmenn úr öllum deildum háskólans komið og unnið að hugmyndum sínum í samstarfi við atvinnulífið, gert frumgerðir og alls lags tilraunir í frjálsu, þverfaglegu umhverfi.  Boðið er upp á mjög fjölbreytilega og sveiganlega aðstöðu fyrir einstaklinga og hópa.  Þarna eru fyrirlestrasalir, vinnustofur, tilraunastofur og vel búin frumgerðarverkstæði með öllum hugsanlegum tækjum og tólum svo og aðstoðarmönnum sem kunna á tækin.  Þegar hafa komið fram nýjar hugmyndir og vörur sem eru á leið í framleiðslu. Aalto Design Factory hefur vakið athygli víða um heim og nú er Aalto University að koma á fót hliðstæðri hönnunarsmiðju í Kína í samstarfi við Tongji háskólann í Shanghai sem opnar í maí 2010.  

Design Forum Finland

 
Design Forum Finland er kynningarmiðstöð fyrir finnska hönnun og hefur frá upphafi verið stjórnað af Finnska handverks- og hönnunarfélaginu sem var stofnað árið 1875. Design Forum Finland er ætlað að efla samkeppnishæfni finnsks atvinnulífs og menningar. Þessi viðleitni leitast við að auka kynningu á finnskri hönnun og auka notkun hönnunar í iðnaði. Starfsemin felst m.a.í eftirfarandi:
  • Að efla hönnun hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum.  
  • Að tengja saman hönnuði og fyrirtæki.
  • Útgáfustarfsemi svo sem Finnish Design Yearbook, sem kemur út annað hvert ár.
  • Sýningar innanlands og erlendis.
  • Hönnunarvika í Helsinki einu sinni á ári.
  • Verðlaun fyrir góða hönnun: a) til ungra hönnuða, b) fyrir lífsstarf hönnuða, c) til fyritækja.
  • Námskeið fyrir hönnuði til undibúnings þáttöku í sýningum vegna markaðssetningar og kynningarefnis o.fl.

Greinarhöfundar áttu fund með starfsmönnum Design Forum Finland varðandi samstarf við Hönnunarmiðstöð Íslands. Rætt var um að setja upp sýninguna Íslensk samtímahönnun þar árið 2011 og sýndu þeir því mikinn áhuga.  


Design Museum og Museum of Finnish Architecture

 
Design Museum er sérhæft safn í Finnlandi sem velur og viðheldur hönnunarsafni. Safnið ber ábyrgð á rannsóknum og skrásetningu á sínu sviði og heldur sýningar um hönnunarsögu og nútímahönnun. Safnið skipuleggur einnig alþjóðlegar sýningar um finnska hönnun. Í safninu er fastasýning sem er tileinkuð sögu finnskrar hönnunar frá 1870 og fram á þennan dag. Safnið á um 35.000 hluti, 40.000 teikningar og 100.000 ljósmyndir og heldur skrá með upplýsingum um 1000 hönnuði. Design Museum var stofnað árið 1873 sem safn fyrir Lista- og handverksskólann. Sérstakt safn um finnskan arkitektúr var stofnað árið 1956 og er eitt hið elsta sinnar tegundar í heiminum. Höfuð viðfangsefni þess er að safna og dreifa þekkingu um arkitektúr eftir árið 1900 og auka skilning á arkitektúr meðal almennings og fagfólks. Safnið er upplýsingamistöð um þann arkitektúr sem er í umræðunni. Hér eru stundaðar rannsóknir og gagnrýni. Safnið á stórt safn teikninga og ljósmynda, fjölda líkana og stórt bókasafn. Það skipuleggur sýningar í Finnlandi og erlendis, gefur út bækur og heldur fyrirlestra. Á tveggja ára fresti er haldin sýning á nýjum finnskum arkitektúr. Samhliða er gefin út bók um verkin ásamt leiðsögukorti þar sem byggingarnar eru merktar inn á. Þessi tvö söfn eru nú í aðskildum byggingum á sömu lóð. Nú stendur til að byggja tengibyggingu á milli þeirra sem verður samnýtt og þar með skapast samstarfsmöguleikar á milli þessara tveggja sérsafna.

Þess má að lokum geta að árið 1998 var samþykkt stefna ríkisstjórnarinnar í arkitektúr og árið 2000 í hönnun. Þetta er til marks um skilning finnskra stjórnvalda á félagslegu, menningarlegu og efnahagslegu gildi arkitektúrs og hönnunar. Þar eru sérstaklega staðfest tengsl arkitektúrs og hönnunar við nýsköpun sem setur þessa starfsemi í annað samhengi og gefur því aukið vægi.

Staðan á Íslandi 2010

Saga uppbyggingar á hönnunarstarfsemi hérlendis  er öllu styttri en í Finnlandi. Menningarleg sjálfsmynd og ímynd Íslendinga tengist bókmenntum fremur en hönnun og arkitektúr. Það vill þó oft gleymast að íslensku handritin voru ekki aðeins stórmerkar heimsbókmenntir heldur oft á tíðum afar vönduð hönnun eins og
 
Úr Skarðsbók
sést t.d. á Skarðsbók og öðrum handritum.    
 
Hér hefur skilningur og  virðing fyrir hönnun og arkitektúr lengst af verið af skornum skammti og hönnunarnámi og annarri hönnunarstarfsemi ekki verið sinnt sem skildi. Hið byggða umhverfi ber þess víða merki og hönnunarvörur hafa til skamms tíma verið lítið brot af heildarúflutningi landsmanna. Byggingarlistadeild Listasafns Reykjavíkur og Form Ísland, félag áhugamanna um hönnun, hafa um áratugaskeið unnið að auknum skilningi á gildi arkitektúrs og góðrar hönnunar svo og hin 9 félög hönnuða og arkitekta sem nú eiga og reka Hönnunarmiðstöð Íslands.

Margt bendir til þess að hér séu nú að verða sinnaskipti. Með tilkomu hönnunar- og arkitektúrdeildar við Listaháskóla Íslands 2001-2002, stofnun Hönnunarsafns Íslands 1998 og Hönnunarmiðstöðvar Íslands 2008 hafa á skömmum tíma skapast alveg nýjar aðstæður hérlendis.  Árið 2007 var jafnframt gefin út stefna stjórnvalda í byggingarlist og nú er von á stefnu stjórnvalda í hönnun.

Í fyrsta sinn er verið að mennta hönnuði og arkitekta hérlendis á háskólastigi. Markviss söfnun, og skrásetning hönnunar hefur jafnframt hafist í Hönnunarsafninu sem flytur á næstunni í nýuppgert húsnæði í Garðabæ. Síðast en ekki síst hefur Hönnunarmiðstöðin á skömmum tíma tekist að setja mark sitt á umræðuna þannig að eftir hefur verið tekið. Meginmarkmið Hönnunarmiðstöðvarinnar er að efla hönnun og arkitektúr í atvinnulífi og menningu landsmanna, hlúa að nýsköpun og vera hvati til framfara í hönnunarmálum almennt.
  
Eftir bankahrunið 2008 stendur atvinnu- og efnaghagslíf Íslendinga á tímamótum nýrra tækifæra. Með tíð og tíma tekst vonandi að byggja hér upp öflugt menningar- og atvinnulíf sem byggir í auknum mæli á hönnun og öðrum skapandi greinum. Af 140 ára reynslu Finna getum við ýmislegt lært m.a. það að uppbygging hönnunarsamfélags er langhlaup sem gerir kröfur um úthald, öguð vinnubrögð og gagnrýna hugsun. Ef rétt er haldið á málum bendir því margt til þess að hönnun og arkitektúr gætu skipað veglegri sess í íslensku samfélagi en verið hefur.

Höfundar eru sjálfstætt starfandi arkitektar, heimasíða: www.arkhd.is
Dennis Davíð Jóhannesson hefur verið fulltrúi Arkitektafélags Íslands í stjórn Hönnunarmiðstöðvar Íslands frá 2007-2010.


































Yfirlit



eldri fréttir