Fréttir

19.4.2010

Úrslit í hönnunarsamkeppni um nýjan framhaldsskóla í miðbæ Mosfellsbæjar



Á vef Mosfellsbæjar segir:

Tilkynnt hefur verið um úrslit í hönnunarsamkeppni um nýjan framhaldsskóla í miðbæ Mosfellsbæjar.

Architecture.cells, sem er alþjóðlegt net arkítekta og hönnuða, hlaut fyrstu verðlaun.
Höfundar tillögunnar eru Aðalheiður Atladóttir, Falk Krüger og Filip Nosek auk þess sem Árni Þórólfsson veitti ráðgjöf.

Í umsögn dómnefndar um vinningstillöguna segir að hún sýni mjög fallega, áhugaverða og lifandi byggingu þar sem nemendur eru sýnilegir umhverfinu jafnt úti sem inni. Húsið skapar lifandi hlið inn í miðbæ Mosfellsbæjar sem fellur vel að skipulagi og landi í öllum áföngum og að það tákni  framtíð og kraft. Einnig segir í dómnefndaráliti að byggingin sé heilsteypt og að efnisval sé hlýlegt þar sem flæði úti og inni fléttast saman. Megininntak og efnisval tillögunnar er ágætur grunnur að vistvænni byggingu, merkisbera umhverfistefnu bæjarfélagsins.


Alls bárust 39 tillögur í keppnina. Að mati dómnefndar voru þær fjölbreyttar, frumlegar og metnaðarfullar. Djarfar og skemmtilegar hugmyndir birtast í mörgum tillögum þó þær hafi ekki komið til álita til verðlauna eða innkaupa.

Önnur verðlaun hlutu Krads Arkitektúr og þriðju verðlaun hlutu arkitektarnir Guðrún Ingvarsdóttir og Helgi Mar Hallgrímsson og landslagsarkitektarnir Inga Rut Gylfadóttir og Björk Guðmundsdóttir.


Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Mosfellsbær gerðu með sér samkomulag um stofnun og byggingu framhaldsskóla í Mosfellsbæ þann 19. febrúar 2008. Í samkomulaginu kom fram að gert væri ráð fyrir því  að því að hefja kennslu í bóklegum greinum á fyrsta ári framhaldsnáms haustið 2009 og hófst kennsla í bráðabirgðahúsnæði í Brúarlandi í Mosfellsbæ síðastliðið haust.  Ákveðið var að byggt yrði nýtt skólahúsnæði í miðbæ Mosfellsbæjar eins fljótt og verða mætti. Aðilar voru sammála um að í fyrsta áfanga yrði gert ráð fyrir allt að 4.000 fermetra byggingu er rúmaði 400 til 500 bóknámsnemendur.

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ er framhaldsskóli sem kennir sig við auðlindir og umhverfi í víðum skilningi og verða þær áherslur samfléttaðar við skólastarfið. Þar er átt jafnt við auðlindir í náttúrunni sem og mannauð með áherslu á lýðheilsu og menningarlegar auðlindir. Ennfremur er stefnt að því að gera umhverfi skólans að lifandi þætti í skólastarfinu þar sem hugað verður m.a. að náttúrufræði umhverfisins, virðingu fyrir umhverfinu og hvernig njóta má umhverfisins og nýta á skynsamlegan hátt.

Fletta má dómnefndarálitinu í heild sinni á vefsíðu Mosfellsbæjar.
















Yfirlit



eldri fréttir