Verðlaunahafar Menningarverðlauna DV 2009 voru tilkynntir við athöfn
í Iðnó í gær 10. mars.
Bók um Manfreð Vilhjálmsson arkitekt var verðlaunuð í flokknum byggingarlist og hönnunarhópurinn Vík
Prjónsdóttir hlaut verðlaun í flokknum hönnun. Heiðursverðlaunin hlaut Jórunn Viðar, tónskáld og píanóleikari.
Bókinni um Manfreð Vilhjálmsson arkitekt er ritstýrt af Halldóru Arnardóttur og Pétri H. Ármannssyni, hönnun bókarinnar var í höndum Halldórs Þorsteinssonar og ljósmyndari er Guðmundur Ingólfsson.
Hið íslenska bókmenntafélag gefur út.
Í rökstuðningi dómnefndar segir:"Bókin er löngu tímabært yfirlit yfir verk Manfreðs Vilhjálmssonar frá rúmlega hálfrar aldar starfsferli. Þar má meðal annars sjá sum af hans merkustu verkum sem þegar hafa þurft að víkja fyrir fjöldaframleiddum nútímabyggingum. Bókin er mikilvæg áminning til íslensks samfélags um að líta sér nær og þekkja sinn styrk í hógværum snillingum heima fyrir áður en gáttin er opnuð gagnrýnislaust út á við. Í bókinni eru þrjár vandaðar greinar eftir Halldóru Arnardóttur, Aðalstein Ingólfsson og Pétur H. Ármannsson, sem fjalla um verk Manfreðs frá þremur ólíkum sjónarhornum. Fjöldi mynda prýðir bókina og eru flestar eftir Guðmund Ingólfsson. Verkið er allt hið vandaðasta og unnið af stakri fagmennsku og alúð.
Önnur verk sem voru tilnefnd í flokknum byggingarlist voru:
Duftgarður í Sóllandi; Teiknistofan Tröð í samstarfi við Sigurð Guðmundsson myndlistarmann.
Safnaðarheimili Kársnessóknar: Gassa arkitektar
Byggingarlist í augnhæð: Höfundur: Guja Dögg Hauksdóttir
Hönnun: Snæfríð Þorsteins, Hildigunnur Gunnarsdóttir og Guja Dögg Hauksdóttir
Nesstofa: Þorsteinn Gunnarsson
arkitekt
Í rökstuðningi dómnefndar um verðlaunahafana
Vík Prjónsdóttur segir:"Vík Prjónsdóttir varð til fyrir fimm árum síðan þegar hönnuðirnir Egill Kaleví Karlsson, Þuríður Rós Sigurþórsdóttir, Brynhildur Pálsdóttir, Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir og Hrafnkell Birgisson komu saman til að búa til framleiðslu fyrir verksmiðju Víkurprjóns í Vík í Mýrdal. Hópurinn hafði að leiðarljósi að nýta þekkingu og vélarkost Víkurprjóns og sameina hann hugviti og framsýni hönnuðanna. Þarna urðu til frábærar vörur eins og Selshamurinn og Skegghúfan sem hafa vakið athygli út um allan heim fyrir frumleika og gæði. Ný og glæsileg vörulína Víkur leit síðan dagsins ljós um daginn og er ljóst að framtíð þessa verkefnis er björt."
Aðrir hönnuðir sem voru tilnefndir:
Gunnar Gunnarsson gleraugnahönnuður
Reykjavík Eyes
Nikita,
Bára Hólmgeirsdóttir fatahönnuður
Aftur
Sruli Recht hönnuður
Nánari upplýsingar um Menningarverðlaunin er að finna hér.