Fréttir

23.9.2010

Hönnunarmórall

Grein Guðmundar Odds Magnússonar sem birtist í Viðskiptablaðinu 23. september 2010.

Í Lundúnum stendur núna yfir árlegt hönnunar-festival - London Design Festival, ekki ósvipað því sem við gerum hér í Reykjavík í mars og köllum Hönnunarmars. Samhliða þessari hátíð í Lundúnum er önnur sem eiginlega er sett henni til höfuðs. Hún kallar sig „Anti-Design Festival“ eða hátíð gegn hönnun. Þar er reyndar átt við hönnun eins og við þekkjum hana í merkjavörum og alþjóðavæðingu. Hönnun á allskonar lífsstílsdrasli sem við höfum í raun ekkert með að gera. Það er verið að meina andstöðu við tengsl kapítalismans við hönnuði og hönnunariðnaðinn. Viðspyrna gegn þessu hefur kraumað hjá ungum sem gömlum hugsandi hönnuðum síðastliðin 10 ár. Þessi viðspyrna hefur ekki farið fram hjá okkur við Listaháskólann. Margir hönnuðir eru með samviskubit fyrir hönd hönnunar. Við þráum leið út úr þessum tengslum og þessum hugsunarhætti sem gerir alla eins á endanum fyrir utan það að tæma lífsmöguleika okkar hér á jörðinni að lokum. Þetta hefur ýtt okkur í áttina að handverkinu og sjálfbærninni á nýjan leik. Allavega beint okkur í áttina frá glamúr, hönnunarstjörnum, hetjumennsku, yfirborðsmennsku, hraða og sensasjón.

Á níunda áratugnum gekk ég í skóla og lærði grafíska hönnun á vesturströnd Kanada. Kanadamenn hafa verið og eru mjög uppteknir af fjölmenningarlegu samfélagi. Það kemur skýrt fram á mörgum stöðum og ekki síst í menntakerfi þeirra. Þeir reyna að forðast að steypa fólki í sama mót eins og bandaríkjamenn hafa ríka tilhneigingu til að gera alla að "Yankees". Að ítalarnir verði áfram ítalir, að nígeríu-menn verði áfram nígeríu-menn o.s.fr.v. Sú staðreynd að rúmur helmingur bekkjarfélaga minna á sínum tíma var af austrænum uppruna hafði áhrif á það sem við vorum látin læra. Ég tók fljótt eftir því að það var grundvallarmunur á hugsunarhætti hjá mörgum af vestrænum uppruna og austrænum uppruna í sambandi við viðhorf gagnvart sköpun og frumkvöðlastarfi. Ég skal alveg játa að á þeim tíma fannst mér við, fólkið með vestræna bakgrunnin, hafa algera yfirburði í sköpunargetu yfir fólkið með austræna bakgrunnin. Þetta voru bara „Copy-cats“ í mínum bókum. Í dag er ég ekki eins sannfærður um að sá samanburður sé okkur í hag. Það er ekki svo að þeir hafi tekið eitthvað frumkvæði í sínar hendur og farið fram úr okkur á seinni árum. Það er frekar að skilningur minn á athöfnum hins vestræna manns sem veldur því að ég er farinn að draga í efa ágæti þessara „yfirburða“. Mér finnst líka minna fara fyrir raunverulegum frumleika og meira af rembingi hjá hinum vestræna ef grannt er skoðað.

Við höfðum reyndar á þessum árum mjög góðan kennara í hugmyndafræði sem kannski læddi inn fyrstu efasemdum um ágæti vestrænnar menningar inn fyrir heilaskelina. Hann eyddi haustmisserinu í sýna okkur inn í ættfræði grunnhugtaka í vestrænni menningu. Hann kenndi okkur helling um gríska heimspeki, um elementin og Heraklítus, um Platon og Sókrates. Hann tók sér góðan tíma að kenna okkur abstrakt-stigan og abstrakt hugsun. Hann fór á jakahlaupi um evrópska heimspekisögu, sérstaklega frá endurreisn fram að Frankfúrtar-skóla. Hann gat meira að segja talað heilmikið um Karl Marx sem allir voru hættir að tala um. Rétt fyrir jól þennan vetur dvaldi hann svo við nýju frönsku heimspekina, Braudillard, Foucault og Derrida. Allan þann tíma sem kennslan fór fram tengdi hann orð sín við dæmi úr sögu manngerðra hluta - sérstaklega eftir að iðnbyltingin kom til sögunnar og hin raunverulega saga hönnunar fer af stað. Þessi kennari var, þarna á seinni hluta níunda áratugar síðustu aldar, að innrétta inn í sálarlíf okkar skilning á því sem við köllum plúralisma, póst-strúktúralisma eða póst-módernisma.

Eftir jól á vormisseri sneri hann blaðinu við og minntist varla á Evrópu fyrr en undir vor. Hann tók fyrir austurlenskan hugsunarhátt og hugtakanotkun. Hann fór að sýna okkur viðhorf austursins til sköpunar. Hann sýndi okkur hvernig sverð samurai-hermanna voru unnin. Hann lét okkur fara í NOH-leikhús við Asíu-miðstöðina á háskóla-campusnum. Hann lét okkur taka þátt í te-sermóníum á sama stað. Hann fór með okkur á alvöru japanskan- restaurant þar sem við þurftum meira að segja að fara úr skónum, fá inniskó og sitja á hnjánum við lítil borð. Hann stóð fyrir námskeiði í Sushi-gerð og í Origami eða japanskri klippilist. Hann sýndi okkur kvikmyndir um hefðbundnar japanskar pakkningar fyrir egg til dæmis og fyrir margt fleira. Allstaðar var greinilegt hvernig náttúran var látin vinna með tilganginum. Þegar fór að líða á vorið vitnaði hann oftar og oftar í skrif ameríska tónskáldsins John Cage um Zen-búddisma og áhrif austrænna hugsana á Norður-Ameríska listamenn. Hann hvatti okkur til að fara á hugleiðslu-námskeið og kyrja möntrur. Hann sýndi okkur hvernig austrænn hugsunarháttur beygði sig undir náttúrulögmálin og léti flæðið ráða. Hann sýndi okkur hvernig hinn vestræni maður böðlaðist með afli á borvélinni meðan hinn austræni léti borinn um að bora. Hvernig hinn austrænni forðaðist að rembast og leggja undir sig náttúrunni eins og hinn vestrænni maður stærir sig af eins og hann sé herra nattúrunnar. Allt virðist koma í kjölfar kristninnar. Hvernig þessi yfirgangur hins vestræna manns hefur lagt undir sig heiminn, alþjóðavætt hann með vopnavaldi og biblíunni og gert sig háðan 80% af auðlindum heimsins þó að hann telji ekki nema 17% af íbúafjöldanum.

Hangir saman við söguna sem ég segi svo oft þegar mig vantar dæmi um þetta hér á landi. Systir mín á lítinn landskika og sumarbústað. Þetta sumarbústaðarland er með mosavöxnu hrauni en samt með litlum lautum með berjalyngi og birki kjarri. Þetta er svona sumarbústabyggð þar sem talsvert er um nágranna. Systir mín er svo sem ekki mikið fyrir hugleiðslu og austræna hemspeki enn henni er mjög annt um náttúruna. Henni var ekki alveg sama þegar einn nágranni hennar sléttaði sína lóð og tyrfði ferkanntaðan flöt. Það gekk alveg fram að henni þegar hann hallaði sér að girðingunni á milli þeirra og sagði hróðugur upphátt - Hugsaðu þér — hér var ekkert áður en ÉG kom! Hvílíkur hroki! Minnir mig á danska hönnun á Grænlandi eða Ameríska á Hawai.

http://www.facebook.com/note.php?note_id=10150277590630363


















Yfirlit



eldri fréttir