Styrkþegar við úthlutunina í gær í Listasafni Íslands.
Átta hönnuðir og arkitektar fengu úthlutað 7.880.000 kr. úr
Hönnunarsjóði Auroru í gær. Að þessu sinni bárust Hönnunarsjóðnum 62 umsóknir
á sviði arkitektúrs, grafískrar hönnunar, landslagsarkitektúrs,
fatahönnunar og vöruhönnunar. Fjölbreytileiki umsóknanna gefur
Hönnunarsjóðnum tækifæri til að breikka starfssvið sitt enn frekar og
koma að fjölbreyttum verkefnum á öllum sviðum hönnunar og arkitektúrs.
Hönnunarsjóðurinn mun halda áfram stuðningi við eftirtalda
einstaklinga, sem öll eru í markaðssókn erlendis; Hugrún Árnadóttir og
Magni Þorsteinsson með skólínu sína Kron by KronKron, hönnunarhópinn
Vík Prjónsdóttir og Bóas Kristjánsson fatahönnuð með merki sitt 8045.
Þrjú ný verkefni fá styrk að þessu sinni, en að baki þeim stendur
fjölbreyttur hópur fólks.
Fyrst má nefna fimm unga arkitekta sem kalla
sig “Skyggni Frábært”. En þau hljóta styrk til þróunar verkefnisins
"Ylhús fyrir alla". Hópinn mynda arkitektarnir : Ástríður Magnúsdóttir,
Bjarki Gunnar Halldórsson, Helgi Steinar Helgason, Hildur
Gunnlaugsdóttir og Hildur Steinþórsdóttir. Verkefnastjórn er í höndum
Sólveigar Thorlacius, mannfræðings.
Hörður Lárusson grafískur hönnuður
fær styrk til hönnunar á bók sem fjallar um og sýnir hvernig skal
umgangast íslenska fánann með virðingu og svo rétt sé.
Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt, fær styrk til frekari vöruþróunar, gerð
viðskiptaáætlunar og kynningarefnis tengdu húsgögnunum "FurniBloom",
sem verða notuð í breyttri mynd í samnorrænni sýningu
landslagsarkitekta í tengslum við World Expo 2010 í Shanghai.
Auk þessa eru veittir tveir styrkir til nýlega útskrifaðra hönnuða
til starfsreynslu hjá starfandi hönnuði eða arkitekt á Íslandi.
Hönnunarsjóðurinn kynnti slíka styrki fyrst í október sl. Þetta eru
annarsvegar Kristrún Thors vöruhönnuður til starfsreynslu hjá Guðrúnu
Lilju Gunnlaugsdóttur í Studio Bility. Hinsvegar Laufey Jónsdóttir,
fatahönnuður sem fær nú úthlutlað seinni hluta styrks sem úthlutað var
í október sl. en hún vinnur að hönnun fatalínunnar Blik hjá Glófa ehf.
Um er að ræða fyrstu úthlutun ársins af þremur en næsta úthlutun er
áætluð í maí og svo í september. Umsóknarfrestur verður auglýstur
sérstaklega á heimasíðu sjóðsins. Þetta er gert
til að mæta enn frekar hraða og veltu verkefna í faginu.
Þetta segir í fréttatilkynningu frá Hönnunarsjóðnum.
www.honnunarsjodur.is