Steinsteypufélag Íslands leitar stöðugt nýrra leiða til að vekja athygli á mikilvægi steinsteypu í umhverfi okkar enda steinsteypa helsta byggingarefni Íslendinga.
Að frumkvæði Ólafs Walleviks hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur stjórn Steinsteypufélagsins ákveðið að velja steinsteypt mannvirki ársins. Veitt verður viðurkenning fyrir mannvirki þar sem saman fer frumleg og vönduð notkun á steinsteypu í manngerðu umhverfi.
Við valið verður haft að leiðarljósi að mannvirkið:
− sé að uppistöðu til úr steinsteypu
− sé framúrskarandi vegna arkitektúrs, verkfræðilegra lausna og handverks
− búi yfir frumleika og endurspegli þekkingu í meðferð og notkun steinsteypu
− auðgi umhverfið, inniberi gæði, glæsileik og nytsemi og sýni augljósan metnað í samhengi viðumhverfi sitt
− sé byggt á síðustu fimm árum og í notkun
Viðurkenningin verður veitt mannvirkinu og þeim aðilum sem að því standa, svo sem verkkaupa,hönnuðum og framkvæmdaaðilum. Hún verður afhent í fyrsta sinn á Steinsteypudegi 2010 í febrúar næstkomandi.
Verkið verður valið af starfshópi sem í eiga sæti:
Þorbjörg Hólmgeirsdóttir, formaður Steinsteypufélag Íslands
Ólafur Wallevik Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Jóhannes Þórðarson Listaháskóli Íslands
Björn Marteinsson Verkfræðingafélag Íslands
Þórhallur Sigurðsson Arkitektafélag Íslands
Leitað er eftir tilnefningum frá verk‐ og tæknifræðingum, arkitektum, listamönnum og iðnaðarmönnum í gegnum samtök þeirra og frá skipulags‐ og bygginganefndum.
Tilnefningar skulu berast Þorbjörgu Hólmgeirsdóttur á netfangið
thh@mannvit.is fyrir 22. janúar 2010.
Nánari upplýsingar eru á
vef Steinsteypufélagsins.