Pétur H. Ármannsson arkitekt flytur fyrirlestur á Kjarvalsstöðum um
verk Högnu Sigurðardóttur arkitekts í tengslum við sýninguna Efni og
andi í byggingarlist, laugardaginn 6. febrúar kl. 14. Fyrirlesturinn
er endurfluttur, þar eð færri komust að en vildu þegar hann var fluttur
fyrst í janúar. Sýning Högnu Sigurðardóttur hefur verið framlengd til
28. febrúar. Aðgangur er ókeypis.
Högna Sigurðardóttir - Efni og andi í byggingarlist er fyrsta einkasýning á verkum Högnu Sigurðardóttur á Íslandi og
er hún unnin í náinni samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Sýningin
var opnuð laugardaginn 7. nóvember og stendur til 28. febrúar nk.
Sýningarstjóri er Guja Dögg Hauksdóttir, deildarstjóri
byggingarlistardeildar Listasafns Reykjavíkur og samstarfshópur er
skipaður þeim Önnu Sóleyju Þorsteinsdóttur, Laufeyju Agnarsdóttur,
Magnúsi Jenssyni og Sigríði Maack, arkitektum.
Högna er vel þekkt sem
frumkvöðull á sviði byggingarlistar á Íslandi. Hún hefur með verkum
sínum haft mikil áhrif á sjónrænt umhverfi okkar og þróun íslenskrar
byggingarlistar, ekki síst með listrænni tilvísun í
byggingarlistararfinn, dirfsku í notkun náttúrulegra efna auk
skúlptúrel formsköpun bygginga sinna. Hún var fyrst kvenna til að
starfa sem arkitekt hérlendis, og hefur verið óhrædd við að fara
frumlegar leiðir að verkum sínum, þar sem finna má tilvísun í þekkta
erlenda arkitekta 20. aldarinnar - svo sem Le Corbusier, Louis Kahn,
Tadao Ando og fleiri, en jafnframt haldið á lofti afar persónulegri
túlkun og nálgun að verkum sínum. Högna vakti á sínum tíma athygli
fyrir að vinna byggingu og innviði hennar sem eina heild og steypa
þannig innréttingar, húsgögn og blómaker með innra rými byggingarinnar,
auk þess að forma nánasta umhverfi hennar sem órjúfanlegan hluta af
heildarmynd hins manngerða umhverfis.
Þetta segir á vef Listasafns Reykjavíkur
www.listasafnreykjavikur.is
Brekkugerði í byggingu