Fréttir

9.12.2009

Ketkrókur | Jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra

jólaórói, hönnun og ritsnilld Ketkrókur er viðfangsefni listamannanna Hrafnkels Birgissonar og Gerðar Kristnýjar, en þau leggja Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra lið í ár við gerð jólaóróans.

Hrafnkell fæst við stálið en Gerður við orðin.

Jólaóróinn Ketkrókur er fjórði óróinn í jólasveinaseríu Styrktarfélagsins. Þegar hafa Sigga Heimis og Sjón túlkað jólasveininn Kertasníki, Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir og Andri Snær Magnason túlkað Hurðaskelli og nú síðast túlkuðu Katrín Ólína Pétursdóttir og Hallgrímur Helgason Grýlu.

Óróinn og kvæðið í ár eru sérlega skemmtileg. Óróinn hefur ekki aðeins þann tilgang að skreyta heldur hugsar Hrafnkell hann einnig sem verkfæri. Verkfærið á að virka þannig að þú setur fingurna í gengum augu óróans og krækir svo hangikjötinu upp úr pottinum.    

Óróar Styrktarfélagsins hafa frá upphafi tilurðar þeirra prýtt Óslóartréð, jólatré Reykvíkinga og eru eina skrautið á trénu utan jólaljósanna. Ketkrókur mun prýða tréð í ár en tendrað verður á trénu fyrsta sunnudag í aðventu, 29. nóvember.  

Óróarnir eru framleiddir hjá Geislatækni í Garðabæ og pakkað af einstökum áhuga og natni hjá Vinnustofunni Ási. Verkefnið er því atvinnuskapandi auk þess að sameina íslenska hönnun, ritsnilld, menningararf og gott málefni.

Allur ágóði verkefnisins rennur til uppbyggingar og þróunarstarfs Æfingastöðvarinnar þar sem fer fram hæfing og endurhæfing barna og ungmenna sem þurfa aðstoð við að bæta færni sína í leik og starfi.  

Sala Ketkróks fer fram  5. - 19. desember á eftirtöldum stöðum:
Reykjavík og nágrenni: Casa – Skeifunni og Kringlunni, Epal – Skeifunni og Leifsstöð,  Kraum – Aðalstræti, Rakel Hafberg Work ∙ Shop – Laugavegi.
Landsbyggðin: Blóma og gjafabúðin – Sauðárkróki, Blómaturninn – Ísafirði, Norska húsið – Stykkishólmi, Póley – Vestmannaeyjum, Valrós – Akureyri.



























Yfirlit



eldri fréttir