Arkitektanemar í LHÍ bjóða til kynningar á borgarpælingum, tíðbeygðum í nútíð og framtíð, fimmtudaginn 19. nóvember kl. 20 í Hugmyndahúsi háskólanna, Grandagarði 2.
Kynnt verður greining og umræða sem átt hefur sér stað á námskeiði þriðja árs arkitektanema við LHÍ - Hús í borg 2030. Sem undanfari að hönnunarverkefni annarinnar hafa nemendur lagt í margþættan lestur og greiningu á samhengi heimilis og borgar, einkarýmis og samfélags.
Í gegnum þetta ferli hafa þau einangrað ákveðna þætti og eiginleika borgarinnar, greint þá, lesið og uppskorið nýjar spurningar. Þá hafa þau farið til St. Pétursborgar og borið greiningar sínar saman við aðstæður þar í borg, lagst í tilvikarannsóknir, lesið í félagslegar tengingar og dvalarmynstur og lagt drög að framtíðarsýn með björgunaraðgerðum í verkefninu (ó)borg, mín borg! Aðgerð: Reykjavík 2030.
Nemendur munu deila greiningum sínum og framtíðarsýn með áhugasömum gestum og vonast er til líflegra umræðna í kjölfarið.
Kennarar námskeiðsins eru Sigrún Birgisdóttir, lektor og fagstjóri í arkitektúr við LHÍ og Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt og stundakennari. Fjölmargir fyrirlesarar og gestir hafa komið að námskeiðinu.