Fréttir

1.11.2009

Íslensk samtímahönnun - húsgögn, vöruhönnun og arkitektúr

Út er komin bókin Íslensk samtímahönnun, húsgögn, vöruhönnun og arkitektúr sem gefin er út í tengslum við sýninguna Íslensk hönnun 2009. Bókin gefur yfirlit yfir verk íslenskra hönnuða á síðustu árum en vöntun hefur verið á bókum um íslenska hönnun.

Áhersla er á þrjár hönnunargreinar, húsgagna- vöruhönnun og arkitektúr og verkin valin til þess að gefa sem fjölbreyttasta mynd af verkum íslenskra hönnuða samtímans hvort sem það eru snjóflóðavarnargarðar á Siglufirði eða barinnréttingar í Hong Kong.

Bókin kemur út á ensku í ársbyrjun 2010 og stefnt er að útgáfu hennar á fleiri tungumálum.

Höfundur bókarinnar Íslensk samtímahönnun, húsgögn, vöruhönnun og arkitektúr er Elísabet V. Ingvarsdóttir, hönnunarsagnfræðingur sem um árabil hefur kennt hönnunarsögu og kynnt sér sögu og stílþróun íslenskrar hönnunar. Bókin er hönnuð af Herði Lárussyni hjá Vinnustofu Atla Hilmarssonar og Crymogea gefur hana út.

Nánari upplýsingar um útgáfu bókarinnar er að finna á vefsíðu Crymogeu.

Sýningin Íslensk hönnun 2009 hefur nú verið sett upp í Ketilhúsinu á Akureyri og verður opin til 7. nóvember nk. Sýningin sem hugsuð er sem farandssýning opnaði fyrst á Listahátíð í Reykjavík á Kjarvalsstöðum í sumar, heldur ferð sinni áfram til Norðurlandanna, Kína og víðar í framhaldinu.

















Yfirlit



eldri fréttir