Fréttir

28.10.2009

Sýningin Íslensk hönnun 2009 í Ketilhúsinu



Laugardaginn 24. október opnar í Ketilhúsinu á Akureyri sýningin Íslensk hönnun 2009 - Húsgögn, vöruhönnun og arkitektúr og verður við þetta tækifæri afhent fyrsta eintak bókarinnar Íslensk samtímahönnun, sem gefin er út í tengslum við sýninguna.

Á sýningunni, sem var hluti af Listahátíð Reykjavíkur og var sett upp á Kjarvalsstöðum í sumar, er sýnd íslensk samtímahönnun þar sem er unnið með tengsl þriggja hönnunargreina, húsgagna- og vöruhönnun og arkitektúr sem eiga stóran þátt í að móta manngert umhverfi með samspili sín á milli. Á sýningunni er samhengi þeirra skoðað og hvernig þær eru samofnar mannlegri hegðun allt frá því að eiga þátt í  að skipuleggja tímann, væta kverkarnar eða  verja okkur fyrir náttúruhamförum. Sýnd eru gríðarstór mannvirki og fínleg nytjahönnun sem eiga þó það sameiginlegt að tilheyra manngerðu umhverfi og vera mótandi þáttur í því.

Sýningunni Íslensk hönnun 2009 er ætlað að vera spegill þess sem telja má á einn eða annan hátt gæði í íslenskri hönnun undanfarin ár. Markmiðið er að árétta gildi góðrar hönnunar og öflugs hugvits fyrir mannlegt samfélag -  verðmæti  til að virkja  til framtíðar.

Sýnd eru verk frá um 30 hönnuðum sem eru valin með það í huga að eiga erindi ytra til frekari kynningar, sölu eða framleiðslu en frá Akureyri fer sýningin til Norðurlandanna og svo alla leið til Kína þar sem hún verður sett upp í tengslum við þátttöku Íslands á Expó í Shanghai á næsta ári.

Samhliða hönnunarsýningunni er kynning á verkum ungra, efnilegra hönnuða í samvinnu við Hönnunarsjóð Auroru.

Sýningarstjóri er Elísabet V. Ingvarsdóttir og verður hún með leiðsögn um sýninguna sunnudaginn 25. október klukkan 13:30.

Sýningarhönnun er í höndum Kurtogpí.
Þátttakendur og verk á sýningunni eru:

Katrín Ólína Cristal Bar, Hong Kong
Kurtogpí Menntaskóli Borgarfjarðar
Landmótun Lækurinn
Landslag ehf Snjóflóðavarnir á Siglufirði
pk-arkitektar birkimörk
+ARKITEKTAR Hótel Borg (innviðir endurgerð)
Rut Káradóttir heimili
Studio Granda Hof Höfðaströnd
VA Arkitektar Bláa Lónið –Lækningalind
Tinna Gunnarsdóttir Fluga
Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir Visual inner structure
Kristín Sigfríður Garðarsdóttir munnblásið gler
Ingibjörg Hanna Bird Coat Hanger
Stella Design Fjölskyldan mín (glös)
go form MGO 182 & MGO 500
Sigríður Sigurjónsdóttir & Snæfríð Þorsteins Hillurnar eru komnar á fætur
Stefán Pétur Sólveigarson Skrauti
Snæfríð Þorsteins & Hildigunnur Gunnarsdóttir 2922 dagar
Aðalsteinn Stefánsson & Aleksej Iskos  Ornametrica
DOGG DESIGN Rocky Tre
DOGG DESIGN HEKLA & KÍNA
Hrafnkell Birgisson Hábolli
Erla Sólveig Óskarsdóttir Sproti & Spuni
 
Vaxtarbroddar:
 
Dagur Óskarsson Dalvíkursleði
Friðgerður Guðmundsdóttir Stuðlar
Jón Björnsson Flower Eruption
Sóley Þórisdóttir Áhöld
Þórunn Árnadóttir KLUKKA

Sýningin er samstarf Akureyrarstofu, Menningarmiðstöðvarinnar í Listagili og Hönnunarmiðstöðvar Íslands og var á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík.

Sýningin er styrkt af Utanríkisráðuneyti, Menntamálaráðuneyti, Iðnaðarráðuneyti, Útflutningsráði og Hönnunarsjóði Auroru.


Við þetta tækifæri verður afhent fyrsta eintak bókarinnar Íslensk samtímahönnun, húsgögn, vöruhönnun og arkitektúr sem gefin er út í tengslum við sýninguna. Bókin gefur yfirlit yfir verk íslenskra hönnuða á síðustu árum en vöntun hefur verið á bókum um íslenska hönnun. Áhersla er á þrjár hönnunargreinar, húsgagna- vöruhönnun og arkitektúr og verkin valin til þess að gefa sem fjölbreyttasta mynd af verkum íslenskra hönnuða samtímans hvort sem það eru snjóflóðavarnargarðar á Siglufirði eða barinnréttingar í Hong Kong. Bókin kemur út á ensku í ársbyrjun 2010 og stefnt er að útgáfu hennar á fleiri tungumálum.

Höfundur bókarinnar Íslensk samtímahönnun, húsgögn, vöruhönnun og arkitektúr er Elísabet V. Ingvarsdóttir, hönnunarsagnfræðingur sem um árabil hefur kennt hönnunarsögu og kynnt sér sögu og stílþróun íslenskrar hönnunar. Bókin er hönnuð af Herði Lárussyni hjá Vinnustofu Atla Hilmarssonar og Crymogea gefur hana út.

















Yfirlit



eldri fréttir