Hugmyndasamkeppnin Framleiðum hugmyndir er annar áfangi verkefnis N1,
Start09 sem hófst með hugmyndafundi í Borgarleikhúsinu í júní. Markmiðið er að hvetja fólk og fyrirtæki til nýrrar sóknar og uppbyggingar um allt land og leysa nýjar hugmyndir úr læðingi. Spurningin sem Íslendingar standa frammi fyrir er þessi: Hvernig komumst við út úr vandræðunum? Lausnin felst í aukinni verðmætasköpun þjóðarinnar. Með þessari hugmyndasamkeppni er leitast við að laða fram skapandi hugmyndir sem geta skapað aukin verðmæti um allt land.
Allir geta tekið þátt í samkeppninni, sérfræðingar jafnt sem
almenningur, börn og fullorðnir. Eina skilyrðið er að hugmyndin snúist
um aukna verðmætasköpun á Íslandi.
Þátttakendur eru hvattir til að huga vel að framsetningu
og myndskreytingu hugmynda sinna. Fullum trúnaði er heitið og verða
hugmyndirnar að sjálfsögðu áfram eign þess sem sendir hana inn.
Frestur til að skila inn hugmyndum rennur út 30.september 2009.
Fyrstu verðlaun. 1.000.000 kr.
Önnur verðlaun. 500.000 kr.
Þriðju verðlaun. 250.000 kr.
Vinningshöfum stendur einnig til boða að fá fagráðgjöf sérfræðinga við að þróa hugmyndina áfram. Þá mun N1 hjálpa til við að skapa viðskiptatengsl milli eigenda vinningshugmynda og mögulegra samstarfsaðila, s.s. fjárfesta og þróunaraðila.
Spurt og svarað
Nokkrar gagnlegar ábendingar varðandi innsendingar.
Metnaðarfullur rökstuðningur og frágangur hugmynda skiptir máli í samkeppninni. Það auðveldar störf dómnefndar að hugmyndinni sé lýst á sem einfaldastan hátt, t.d. með myndum.
Hvernig sendi ég inn efni?
Æskilegt er að samantekt hugmyndar og kynningartexti sé ekki lengri en 1-2 blaðsíður, helst í Word eða á pdf formi.
Einnig má senda inn fylgiefni s.s. myndskeið allt að 3 mínútur að lengd á eftirfarandi formi: .wmv, avi, .mov,.mpeg og mp4.
Sé fylgiefni á glæruformi er æskilegt að þær séu ekki fleiri en 10.
Hvaða upplýsingar þurfa að koma fram í innsendingu?
Almenn lýsing hugmyndarinnar (hvað, hvernig, hvenær og fyrir hverja?)
Upplýsingar um höfund hugmyndar, fullt nafn, kennitala, símanúmer og netfang.
Sérstaða hugmyndarinnar. Hvað er nýtt? Af hverju skarar þín hugmynd fram úr?
Hvaða tilgangi þjónar hugmyndin og hvaða þarfir og væntingar er verið að uppfylla?
Hversu mikið fjármagn þarf til að koma hugmyndinni á legg og hver er áætlaður endurgreiðslutími?
Hver er áætlaður þróunartími? Er óvissa um árangur og mögulegar hindranir ?
Hversu mannaflsfrek er hugmyndin?
Hefur hugmyndin jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag?
Hver er markaðurinn (stærð, samkeppni)?
Hvernig vinnur dómnefndin?
Fullur trúnaður ríkir um innsendar hugmyndir.
Höfundur afsalar sér ekki neinum réttindum með því að senda inn hugmynd.
Innsendar hugmyndir verða flokkaðar og kynntar dómnefnd.
Dómnefnd mun velja þær hugmyndir sem þykja skara fram úr í einhverjum eftirtalinna þátta, samkeppnishæfni, arðbærni, samfélagsleg áhrifum, endingartíma (skammtíma eða langtímaverkefni) og sérstöðu.
Dómefnd mun mögulega kalla eftir nánari upplýsingum frá höfundum hugmynda eftir því sem ástæða er til.
Dómnefnd skipa:
Hermann Guðmundsson, forstjóri N1
Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ
Ragnheiður H. Magnúsdóttir, annar stofnanda Uppsprettu
Jeff Taylor, frumkvöðull, stofnandi Monster.com
Guðjón Már Guðjónsson, Hugmyndaráðuneytismaður
Allar nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu
Start 09