Kaj Mickos prófessor við Mälardalens Háskólann í
nýsköpunartækni, hefur undanfarin 20
ár verið ráðgjafi og aðstoðað um 25 þúsund einstaklinga við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Hann
á sjálfur 31 einkaleyfi og hefur stofnað 14 fyrirtæki á ólíkum sviðum. Hann er upphaflega
menntaður sem gullsmiður.
Undanfarin tvö ár hefur hann verið með tvær sjónvarpsþáttaraðir í TV8 í
Svíþjóð. Önnur heitir „72 hours race“ þar sem hugmynd er útfærð og undirbúin til framleiðslu á 72 tímum.
Hin þáttaröðin heitir „Innovatörarna“ þar sem Kaj fer inní starfandi fyrirtæki
og hjálpar til við lausn á ákveðnu vandamáli.
Kaj Mickos er stofnandi Innovation Plant eða Nýsköpunarverksmiðjunnar. Hann hefur verið að þróa
aðferðafræði sína í meira en 20 ár sem gengur út á það að gera nýsköpunarferlið
árangursríkara þannig að fleiri vörur nái markaði.
Kaj er vinsæll fyrirlesari og hefur farið heimshorna á milli.
Kaj
Mickos heldur fram eftirfarandi:
- fyrirtæki þurfa stöðuga endurnýjun til að halda forskoti í samkeppni
- það er hægt að móta nýsköpunarferlið
- markmiðið er að koma nýrri vöru á markað
- hugmyndasmiðir eru alls staðar í samfélaginu
- flestir þeirra sem stuðla að nýsköpun eru nýgræðingar sem þurfa aðstoð
- þverfaglega vinnu þarf til þess að koma nýrri vöru á markað
- það eru fleiri en færri hugmyndir, sem hægt er að þróa til árangurs
- mikilvægt er að koma sem fyrst inn með faglega þekkingu
- það er ómögulegt að dæma í upphafi hvort hugmynd nær árangri á markaði
- árangur er undir verkefnastjóranum komið
- ómögulegt er að ljúka verkefni án peninga
Markmið
Nýsköpunarverksmiðju Kaj Mickos er að:
- auka vöxt og verðmætasköpun samfélagsins með því að tengja saman hugvit og
þekkingu og leysa þannig nýsköpunarkraftinn úr læðingi.
Einstaklingurinn er settur í fyrirrúm, geta hans og þekking. Allir eiga
möguleika að ná árangri ef þeim er gefið tækifæri.
Það er mikilvægt að hver einasta manneskja sem tekur þátt í nýsköpunarfelinu
hafi eldmóð, metnað og hvatningu til að taka þátt í að leysa verkefnið og finna
lausnir.
Kaj Mickos segir að ef við höfum hugmynd sem uppfyllir ákveðna
þörf, viljuga manneskju sem drífur verkefnið áfram, þverfaglegt teymi sem
hjálpar til og fjármagn, þá verður undantekningarlaust til árangursrík markaðsvara.
Það verður í höndum hugmyndaríks fólks að hjálpa Íslandi upp úr öldudalnum.
Hugvit skapar atvinnu.
Virkjum hugvitið!
Þann 5.september mun Kaj Mickos halda fyrirlestur og vera með vinnustofu sem
hann kallar „Market race“, þar sem 4 lið munu keppa um að leysa ákveðið
vandamál. Þetta eru 10 manna hópar og er fundargestum boðið að taka þátt. Veittar verða viðurkenningar í
lokin fyrir árangursríkustu lausnina.
Þessi fyrirlestur er samvinnuverkefni milli Kadeco, Keili, KVENN og Samtök
frumkvöðla og hugvitsmanna.
Allir eru velkomnir!
www.asbru.is