Fréttir

25.8.2009

Verðlaunasjóður iðnaðarins auglýsir eftir ábendingum um verðlaunahafa árið 2009


Stjórn Verðlaunasjóðs iðnaðarins hefur ákveðið leita eftir ábendingum um verðugan verðlaunaþega sjóðsins árið 2009. Verðlaunin sem verða veitt á haustdögum eru auk peningaupphæðar, sérstakur verðlaunagripur og innrammað verðlaunaskjal.


Verðlaunasjóður iðnaðarins var stofnaður árið 1976 af Kristjáni Friðrikssyni í Últíma, eiginkonu hans frú Oddnýju Ólafsdóttur og fjölskyldu. Sjóðurinn starfar nú samkvæmt stofnskrá frá árinu 1996 í samstarfi við Samtök iðnaðarins.

Tilgangur sjóðsins er að örva til dáða á sviði iðnaðarmála og jafnframt vekja athygli á þeim afrekum, sem unnin hafa verið og unnin verða á því sviði. Stofnframlag sjóðsins er af gefendum helgað “minningu þeirra fjölmörgu hugvits- og hagleiksmanna sem fyrr og síðar hafa lifað og starfað á Íslandi en misjafnrar umbunar notið fyrir verk sín”.

Í samþykktum sjóðsins er eftirfarandi leiðbeining um val á verðlaunaþega:
  • Verðlaunin skal gjarnan veita fyrir uppfinningar sem líklegar teljast til að koma íslenskum iðnaði að gagni.
  • Verðlaunin má einnig veita einstaklingum og fyrirtækjum fyrir happadrjúga forystu í uppbyggingu iðnaðar, hvort sem er til innanlands nota eða til sölu erlendis eða fyrir forystu á sviði iðnaðarmála almennt.
  • Verðlaunin má veita fyrir sérlega vel gerða iðnaðarframleiðslu t.d. sem fram kynni að koma á iðnsýningum eða kaupstefnum.
  • Verðlaunin má einnig veita fyrir hönnun, sem er sérlega vel heppnuð að dómi sjóðsstjórnar.

Sjóðsstjórnin hefur að þessu sinni ákveðið að horfa sérstaklega til hönnunar sem m.a. nýtist við verðmætasköpun og uppbyggingu fyrirtækis á sviði iðnaðar. Stjórn sjóðsins hvetur félagsmenn SI, félög hönnuða og aðra til að koma með ábendingar um verðuga verðlaunahafa sem fallið geta vel að einu eða fleiri atriðum í framangreindum leiðbeiningum.  

Ábendingum má koma á framfæri við Davíð Lúðvíksson hjá SI í síma  591 0100  eða á tölvupóstfangi david@si.is fyrir 1. september n.k.

http://www.si.is/malaflokkar/markadsmal/markadsfrettir/nr/3797
















Yfirlit



eldri fréttir