Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri útnefndi Steinunni
Sigurðardóttur fatahönnuð Borgarlistamann Reykjavíkur 2009.
Útnefningin
fór fram í Höfða og gerði Áslaug Friðriksdóttir formaður menningar- og
ferðamálaráðs grein fyrir vali ráðsins á borgarlistamanni. Við þetta
tækifæri var Steinunni veittur ágrafinn steinn, heiðursskjal og
viðurkenningarfé. Útnefning borgarlistamanns er heiðursviðurkenning til
handa reykvískum listamanni sem með listsköpun sinni hefur skarað fram
úr og markað sérstök spor í íslensku listalífi.
Steinunn hóf framhaldsnám við listaháskóla í París en flutti sig
síðan til New York. Þaðan útskrifaðist hún fyrst Íslendinga úr
listaháskólanum Parson School of Design í New York með láði og BFA
gráðu í fatahönnun árið 1986. Steinunn á langan feril að baki við
tísku- og fatahönnun, var yfirhönnuður hjá Gucci, Calvin Klein og La
Perla og starfaði áður sjálfstætt með mörgum þekktum hönnuðum. En
aldamótaárið 2000 stofnaði hún eigið fyrirtæki, STEiNUNN.
Og héðan úr Reykjavík berst hróður hennar víða um heim. Hún hefur
sagt í blaðaviðtölum að hrærigrautur lista og hönnunar hér á landi sé
hennar helsti innblástur. Hún kjósi því heldur að starfa hér en
erlendis. Steinunn Sigurðardóttir sýnir glæsilega í verkum sínum
mikilvægt samspil náttúru, menningar og handverks.
Auk þess að hafa verið með tískusýningar á
eigin línu um allan heim hafa verk hennar verið til sýnis á lista og
hönnunarsöfnum og hönnunarsöfn keypt verk hennar fyrir safneign sína.
STEINUNN hlaut stærstu hönnunarverðlaun heims, hin virtu sænsku Torsten och Wanja Söderberg-verðlaunin á síðasta ári en auk þeirra hefur hún hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir verk sín, eins og
Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu (2007), Norrænu
hönnunarverðlaunin Gínuna (2007), Tilnefningu til Íslensku
sjónlistaverðlaunanna (2006) og Menningarverðlaun DV sem hönnuður
ársins (2003).
Menningar- og ferðamálaráð útnefnir borgarlistamann. Ráðið skipa:
Áslaug Friðriksdóttir formaður, Jakob Hrafnsson varaformaður, Sif
Sigfúsdóttir, Brynjar Fransson, Guðrún Erla Geirsdóttir (Gerla), Dofri
Hermannsson og Hermann Valsson.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
www.steinunn.com