Fréttir

30.6.2009

101 TOKYO | Snerting við Japan í Norræna húsinu

 
 
Fyrirlestur fimmtudaginn 2. júlí kl. 20 í stóra sal Norræna hússins

LANDSLAG OG FAGURFRÆÐI – EFNI OG HUGSUN Í BYGGT FORM
Guja Dögg Hauksdóttir, arkitekt faí og deildarstjóri byggingarlistardeildar Listasafns Reykjavíkur kynnir nútímabyggingarlist frá Japan og Íslandi með áherslu á staðbundið landslag og menningu.

ÖGUÐ NAUMHYGGJA OG LÍFRÆN SKYNJUN
Ísland og Japan eiga það sameiginlegt að vera virkar eldfjallaeyjar á jaðri stórra meginlanda Evrópu og Asíu og íbúar beggja þessara landa eru undir sterkum áhrifum af nábýli við sérstakt landslag í hugsun sinni. Virðing fyrir íbúandi öflum náttúrunnar endurspeglast í hugmyndum um vætti í fjöllum, dölum og vötnum og birtist í afstöðu manna við umhverfi sitt, bæði í hugsun og framkvæmdum. Landslagið gegnir mikilvægu hlutverki í hinu manngerða umhverfi byggingarlistarinnar, og á Íslandi runnu byggingar úr torfi, grjóti og tré nánast saman við landslagið og meðvituð fagurfræði birtist t.d. í tilbrigðum við torfhleðslu veggja. Í Japan þróaðist hins vegar heimspekileg nálgun á tengsl manns við náttúruna sem birtist vel í fínlegum tehúsum og samsettum byggingum í listilega tæknilegum útfærslum. Með innreið módernismans í byrjun 20.aldar tóku Íslendingar opnum örmum svölum stíl og geómetrískum línum í húsagerð, sem að hluta til bar innblástur frá japanskri fagurfræði  um hlutföll og einfaldleika, en ekki síður náin tengsl innirýma við umhverfið utandyra með stórum glerflötum, rennihurðum og lágum garðveggjum. Í samtíma byggingarlist virðist japönsk byggingarlist aftur innblásin af mýkri dráttum og rýmiskennd frá norrænum löndum.
Guja Dögg mun velja áhugaverð dæmi úr samtíma byggingarlist landanna tveggja  og velta vöngum yfir tengslum fagurfræði eða hugsunar og áherslum í birtingarmyndum húsa.

Guja Dögg Hauksdóttir (1965) útskrifaðist árið 1994 af deild X frá Arkitektaskólanum í Árósum með áherslu á byggingarlist og fagurfræði. Allar götur síðan hefur hún unnið með skynjun, skilning og listræna tjáningu í byggingarlist, bæði sem kennari við Arkitektaskólann í Árósum, við Listaháskóla Íslands, Myndlistaskólann í Reykjavík og við Alvar Aalto Akademíuna í Finnlandi en einnig sem þáttagerðarmaður fyrir Ríkisútvarpið með pistla fyrir sjónvarp og útvarp, sem og margs konar viðburði tengda byggingarlist fyrir Norræna Húsið í Reykjavík. Hún hefur skipulagt og stýrt íslenskum sem alþjóðlegum listbúðum (workshop) tengdum byggingarlist, setið í ýmsum dómnefndum og skrifar reglulega greinar og gagnrýni fyrir blöð og tímarit og nýverið kom út fyrsta bók hennar Byggingarlist í augnhæð.
Guja Dögg er deildarstjóri byggingarlistardeildar Listasafns Reykjavíkur frá 2006 og hefur þar sett upp sýningar, skipulagt fyrirlestra og sinnt uppbyggingu deildarinnar á margvíslegan hátt.

















Yfirlit



eldri fréttir