Fréttir

9.6.2009

Hugmyndasamkeppni um heildarskipulag Gömlu hafnarinnar í Reykjavík



Faxaflóahafnir sf. bjóða til opinnar hugmyndasamkeppni um heildarskipulag Gömlu hafnarinnar í Reykjavík. Samkeppnin skiptist í tvo hluta, A og B. Í A-hluta er gert ráð fyrir þátttöku fagfólks, kallað er eftir heildarhugmyndum að framtíðarskipulagi svæðisins. Í B-hluta samkeppninnar er gert ráð fyrir þátttöku almennings. A-hluti samkeppninnar er haldinn í samstarfi við Arkitektafélag Íslands.

Samkeppnin hófst á sjómannadaginn, 7. júní síðastliðinn. Skiladagur er 6. október 2009. Fyrirspurnarfrestir eru tveir, sá fyrri 19. júní og sá seinni 11. september.

Í A-hluta samkeppninnar verða veitt verðlaun að heildarfjárhæð kr. 12.000.000. Dómnefnd ákveður skiptingu verðlauna.

Dómnefnd er skipuð sjö fulltrúum. AÍ tilnefndi þrjá fulltrúa, þau Þorvald S. Þorvaldsson, arkitekt FAÍ, Valdísi Bjarnadóttur, arkitekt FAÍ og Hörpu Stefánsdóttur, arkitekt FAÍ. Fulltrúar Faxaflóahafna í dómnefnd eru fjórir. Þeir eru Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður dómnefndar, Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi, Lena Helgadóttir arkitekt FAÍ og Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna.

Keppnislýsingu og hluta keppnisgagna má nálgast á heimasíðu AÍ á slóðinni http://www.ai.is/samkeppnir/faxafloahafnir/opid-svaedi/ Önnur samkeppnisgögn eru aðeins aðgengileg þeim sem skrá sig til þátttöku og greiða þátttökugjald að upphæð kr. 5.000,-.

Skráning fer fram á heimasíðu AÍ: http://www.ai.is/samkeppnir/samkeppnir-i-gangi/nr/431 og verður tekið við rafrænum greiðslum. Við skráningu velur þátttakandi sér aðgangsorð sem veitir honum aðgang að sérstöku svæði þar sem keppnisgögn eru geymd.
















Yfirlit



eldri fréttir