Fréttir

29.4.2009

Nýtt textílverkstæði á Korpúlfsstöðum

Textílverkstæðið Korpa, Korpúlfsstöðum, verður formlega opnað á “Degi myndlistar” laugardaginn 2. maí.

Vinnustofur verða opnar milli kl. 13.oo og 17.oo og félagskonur kynna nýjar vinnustofur. 

Leiðsögn um verkstæðið kl. 13.30 og 15.30.

Textílfélagið hefur tekið á leigu stórt og glæsilegt rými í fyrrum mjólkurbúi á Korpúlfsstöðum. Rýmið er hátt til lofts og vítt til veggja, gamlir bitar og súlur og mikil birta gerir þetta rými einstaklega fallegt og nýtilegt. Unnið hefur verið hörðum höndum síðasta mánuð að því að aðlaga rýmið þeirri starfsemi sem lýtur að þörfum félagsmanna. Sameiginlegt vinnurými með þrykkborðum, vefstól(um), aðstöðu til litunar og blöndunar, blautrými til að þæfa og vinna í pappírsgerð ásamt þvotta og þurrkunaraðstöðu. Einnig verður bókahorn, fundaraðstaða og vinnustofur til útleigu. Alls munu 10 textílkonur vera með vinnuaðstöðu á svæðinu.

Markmið Textílfélagsins með Textílverkstæðinu Korpu er að efla textílmenntun. Samstarf verður við menntastofnanir um að halda námskeið, kynningar, fyrirlestra og sýningar og verður verkstæðið vettvangur þar sem hægt er að leita til fagmanna á sviði textíls til eflingar textíllistum og textílhönnun í landinu.  

Nýting Textílverkstæðis Korpu: Námskeið á vegum Textílfélagsins | Fyrirlestrar og fræðsla á vegum Textílfélagsins | Leiga á aðstöðu til stofnana, einstaklinga eða hópa til lengri eða skemmri tíma.  

Sölusýning á verkum félagskvenna til fjáröflunar Textílfélaginu verður á “Degi myndlistar” 2. maí frá kl. 13 - 17. Textíllistaverk af mjög fjölbreyttum toga:  Verðbil: 2.500 – 5.000 – 7.500 – 10.000 – 15.000 kr. Verið velkomin !  

TEXTÍLFÉLAGIÐ www.tex.is
















Yfirlit



eldri fréttir