Miðvikudaginn 22. apríl kl. 17.00 - 19.00 verður haldið málþing um skipulag höfuðborgarsvæðisins í tengslum við verk Þórðar Ben Sveinssonar á sýningunni Nokkrir vinir sem nú stendur yfir í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg 7.
Á málþinginu hafa framsögu þau Hjörleifur Stefánsson, arkitekt, Ágústa Kristófersdóttir, sýningarstjóri Þjóðminjasafns Íslands, Hjálmar Sveinsson, heimspekingur og þáttagerðarmaður ásamt Halldóri B. Runólfssyni, forstöðumanni Listasafns Íslands.
Skipulagshugmyndir
Þórðar Ben í kaffistofu safnsins og sal 1 gefa ærið tilefni til að
leiða saman hesta manna sem hlotið hafa viðurkenningu fyrir umfjöllun
um skipulagsmál en báðir hlutu þeir Hjálmar og Hjörleifur
virðurkenningu Skipulagsfræðingafélags Íslands árið 2008
fyrir ötula viðleitni sína í ræðu og riti til að upplýsa og efla umræðu
um skipulagsmál. Hjálmar hefur stjórnað útvarpsþættinum Krossgötur um alllangt skeið og Hjörleifur hefur gefið út bækur um byggða- og skipulagssögu höfuðborgarinnar, nú síðast Anda Reykjavíkur,
sem út kom síðastliðið haust. Þá er Ágústa Kristófersdóttir þekkt fyrir
aðkomu sína að skýrslum Árbæjarsafns um byggingasögu Reykjavíkur auk
þess sem hún stjórnaði sýningum á borð við Byggt yfir hugsjónir: Breiðholt frá hugmynd að veruleika, árið 2002, í Listasafni Reykjavíkur.
Þess má reyndar geta að Myndlistarskólinn í Reykjavík, sem jafnframt hlaut viðurkenningu Skipulagsfræðingafélagsins heldur nú nemendasýningu í Listasafni Íslands í tengslum við sýninguna Nokkrir vinir og þátt Magnúsar Pálssonar í henni.
ALLIR VELKOMNIR!
www.listasafn.is