
Í fréttatilkynningu frá skrifstofu borgarstjóra segir:
HönnunarMarsinn sem Hönnunarmiðstöð Íslands hefur staðið fyrir í tilefni af Íslenskum hönnunardögum dagana 26.-29.mars s.l. hefur sýnt að mikil gróska er í íslenskri hönnun. Dagskráin hefur verið afar glæsileg, 150 viðburðir ólíkra hönnuða í mismunandi hönnunargreinum hafa teygt sig um alla borg en alls tóku um 400 – 500 hönnuðir þátt að þessu sinni.
Reykjavíkurborg veitti Hönnunarmiðstöð styrk til verkefnisins auk þess sem eigendur fasteigna við Laugaveg lánuðu rými til sýninga sem 30 vöruhönnuðir nýttu til að tefla fram nýrri íslenskri hönnun. Nýstárleg nýtingin var hvort tveggja í senn, lyftistöng fyrir húsnæði sem stendur tímabundið autt og auðgaði mannlífið í miðborginni. Vegna fjölda áskorana var ákveðið að hafa rýmin á Laugaveginum opin sl. helgi 4. og 5. apríl.

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri fór sl. helgi í fylgd Þóreyjar Vilhjálmsdóttur ,framkvæmdastjóra Hönnunarmiðstöðvar Íslands, og Hlínar Helgu Guðlaugsdóttur verkefnisstjóra Laugavegsverkefnisins, til að skoða rýmin við Laugaveginn. Komið var við á níu stöðum við Laugaveg þar sem gaf að líta margvíslega hönnun allt frá barnaleikföngum til nýtískulegra loftljósa. Hanna Birna gaf sér góðan tíma til að ræða við hönnuðina og skoða hönnunina sem var til sýnis.
Hanna Birna segir HönnunarMarsinn vera góðan vettvang til að kynna íslenska hönnun og hönnuði og upplifa nýjustu strauma og stefnur í íslenskri hönnun.
,, Þessi leið er góð bæði fyrir borgina og fasteignaeigendur í miðborginni. Með þessu móti gefst tækifæri á að nýta tóm rými og glæða þau nýju lífi um leið og fegurri ásýnd miðborgarinnar er viðhaldið. Um nýja nálgun er að ræða sem hefur opnað fjöldann allan af tækifærum til nýtingar á rýmum sem standa tímabundið auð. ”