Fréttir

12.3.2009

Miðborgin glædd lífi með íslenskri hönnun








Í fréttatilkynningu sem Reykjavíkurborg sendi frá sér í dag segir: "Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, um stuðning við framtak Hönnunarmiðstöðvar Íslands sem ætlað er að bæta ásýnd miðborgarinnar og vekja um leið athygli á íslenskri hönnun.

Hönnunarmiðstöð Íslands stendur í fyrsta sinn í ár fyrir HönnunarMars, hönnunardögum sem eru á dagskrá 26.-29. mars og af því tilefni vill Hönnunarmiðstöðin setja upp sýningar og nýta auð rými og útstillingarglugga í samstarfi við fasteignaeigendur í miðborg Reykjavíkur.

Telft verður fram nýrri íslenskri hönnun sem verður jafnframt lyftistöng fyrir húsnæði sem stendur tímabundið autt þar til nýir leigjendur og rekstararaðilar hefja þar starfsemi. Nú þegar hafa hönnuðir samið við húseigendur um að setja hönnun sína inn í 10 rými á Laugaveginum.

Borgarráð fagnar þessu góða framtaki Hönnunarmiðstöðvar Íslands og hugmyndum um að glæða miðborgina lífi með því að nýta auð rými og glugga til kynningar fyrir íslenska hönnun. Borgarráð samþykkti beiðni Hönnunarmiðstöðvar um stuðning og hvetur fasteignaeigendur í miðborginni til að taka vel í ósk um samstarf við íslenska hönnuði og stuðla þannig að enn betri ásýndar miðborgarinnar."
















Yfirlit



eldri fréttir