Fréttir

16.6.2020

Hönnunarmiðstöð Íslands verður Miðstöð hönnunar og arkitektúrs



Hönnunarmiðstöð Íslands verður Miðstöð hönnunar og arkitektúrs - kynnir nýtt einkenni og nýjar áherslur í dag.

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs er hreyfiafl sjálfbærrar verðmætasköpunar sem byggir á hönnun og arkitektúr. Miðstöðin stuðlar að auknu samstarfi milli hönnuða og fyrirtækja og vinnur að því að efla hönnunardrifna og notendavæna nýsköpun sem mótandi afl í menningu, samfélagi og atvinnulífi framtíðar á Íslandi.

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs mun í auknum mæli leggja áherslu á hönnunardrifna nýsköpun sem stuðlar að verðmætasköpun og betra samfélagi. Markmið okkar er að íslensk fyrirtæki og hið opinbera telji sjálfsagt að nýta sér hönnun sem aðferð og tæki í nýsköpun til að ná fram breytingum í þágu lífsgæða, umhverfis og atvinnulífs.

Hönnunarmiðstöð Íslands hefur verið starfrækt í áratug og lagt áherslu á mikilvægi hönnunar og arkitektúrs fyrir samfélagið, menningu og atvinnu- og efnahagslíf. Vitund og áhersla á íslenska hönnun hefur gjörbreyst á þessum tíma. Íslensk hönnun og HönnunarMars eru þekkt víða um heim og Hönnunarmiðstöð á Íslandi er vel þekkt í fagsamfélagi sínu á Norðurlöndum og víðar í Evrópu og Bandaríkjunum.

Á þessum tímamótum telur stjórn tímabært að skerpa á hlutverki miðstöðvarinnar og um leiðbæta arkitektúr inn í nafnið sem fellur betur að alþjóðlegum áherslum



Markmið okkar er að skerpa sýn og efla starfsemina í þágu gæða, sjálfbærni og lífsgæða á Íslandi, enda er stöðug endurskoðun mikilvæg í starfsemi eins og þessari.  Við eigum auðlind í hönnuðum, hugviti og ungu fólki sem þarf að virkja til góðra verka og tryggja atvinnu til framtíðar. Nýju einkenni er ætlað að marka upphafið að nýjum kafla í starfsemi miðstöðvarinnar og það er von okkar að á næstu árum förum við að sjá verulegar áherslubreytingar hjá fyrirtækjum og hinu opinbera þegar kemur að hönnunardrifinni og notendavænni nýsköpun.“ 
Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.

Studio Studio, grafísku hönnuðurnir Arnar Freyr Guðmundsson og Birna Geirfinnsdóttir, hönnuðu einkennið en letrið er hannað af íslensku letursmiðjunni Universal Thirst. Örin endurspeglar framþróun og nýja sýn til framtíðar þar sem haldið er fram veginn með bjartsýni að leiðarljósi og einbeittan vilja til að efla íslenska hönnun og arkitektúr í þágu gæða og góðs mannlífs á Íslandi.

Samhliða nýju einkenni fer nýr vefur Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs úr smiðju Ueno í loftið á næstu dögum.

















Yfirlit



eldri fréttir