Fréttir

17.2.2009

Hönnunarsjóður Auroru stofnaður






www.honnunarsjodur.is


Stjórn Aurora velgerðasjóðs veitti sl. föstudag 13. febrúar, alls 111,5 milljónir króna í styrki til sex verkefna á sviði mannúðar, mennta og menningar hérlendis og í Afríkuríkjunum Síerra Leóene og Mósambík, þar af  25 milljónir á ári í þrjú ár, til Hönnunarsjóðs Auroru á Íslandi.

Stofnun Hönnunarsjóðs Auroru markar tímamót í hönnun á Íslandi því hér hefur aldrei verið til sérstakur sjóður sem styrkir hönnuði. Þetta er þriggja ára tilraunaverkefni sem hefur að markmiði að skjóta styrkum stoðum undir íslenska hönnun með því að veita hönnuðum fjárhagslega aðstoð til kynningar- og söluverkefna hérlendis og erlendis. Einnig getur sjóðurinn haft frumkvæði að sjálfstæðum verkefnum sem þjóna tilgangi hans svo sem að  standa að viðurkenningum eða sýningum og vera samstarfsvettvangur hönnuða og aðila úr atvinnu- og viðskiptalífinu.

Víst er að hvorki skortir tækifæri né grósku í hönnunargeiranum en ekki nógu margir hafa náð að byggja upp svo öflug hönnunarfyrirtæki að þau geti keppt á alþjóðlegum markaði. Þar hefur skort bæði fjármuni og viðskiptaþekkingu. Hönnunarsjóður Auroru og Hönnunarmiðstöð Íslands munu deila húsnæði.

Hlín Helga Guðlaugsdóttir vöruhönnuður hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Hönnunarsjóðs Auroru í hlutastarfi.

“Það leikur enginn vafi á því að stofnun Hönnunarsjóðs Auroru er stórkostleg frétt fyrir hönnun á Íslandi sem ég efast ekki um að hönnuðir allir munu taka fagnandi” segir Hlín Helga “Nú gefst loks langþráð tækifæri til að styrkja og styðja við hið gróskumikla starf sem nú þegar hefur verið unnið af mikilli hugsjón og fagmennsku af hönnuðum þessa lands og þannig renna enn faglegri stoðum undir greinina. Sjóðurinn verður opinn öllum fagmenntuðum hönnuðum og starfræktur á faglegum grunni með sköpunarkraft og eldmóð íslenskrar hönnunar að leiðarljósi.”

Kynningarfundur um starfsemi sjóðsins verður haldinn 19. febrúar nk. og verður nánar auglýstur síðar.

Rökstuðningur stjórnar Auroru:
Þörf er á sérstökum hönnunarsjóði á Íslandi til að styðja við bak efnilegra hönnuða en ekki síður til að efla grasrótarstarf í hönnun og vera vettvangur hugmynda og skapandi hugsunar í greininni. Stjórn Auroru vonar að nýi sjóðurinn stuðli að því að íslensk hönnun vaxi og dafni og verði ein af stoðunum sem skotið verði undir atvinnulífið við endurreisn þess. Reyndar er engu líkara en að efnahagshrunið hafi beinlínis leyst  úr læðingi frjóa hugsun og sköpunarkraft  Íslendinga, meðal annars í hönnunarsamfélaginu. Hönnuðir sjá fjölda nýrra tækifæra til að leggja sitt af mörkum í endurreisnarstarfinu. Hönnunarsjóður Auroru getur orðið sá vettvangur sem nauðsynlegur er til að hrinda hugmyndum í framkvæmd í samvinnu hönnuða og atvinnulífs.

Stjórn nýs Hönnunarsjóðs Auroru
•    Ingibjörg Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt, formaður.
•    Jóhannes Þórðarsson, arkitekt og deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, meðstjórnandi.
•    Halla Helgadóttir, grafískur hönnuður og framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands, meðstjórnandi.
•    Þórey Vilhjálmsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands í barneignarleyfi Höllu Helgadóttur, varamaður stjórnar.

Framkvæmdastjóri: Hlín Helga Guðlaugsdóttir

Fagráð Hönnunarsjóðs Auroru
•    Áslaug Magnúsdóttir, TSM Capital í New York.
•    Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks og dósent við Kaupmannahafnarháskóla.
•    Eyjólfur Pálsson, húsgagnahönnuður og kaupmaður í Epal.
•    Sigurður Þorsteinsson, iðnhönnuður og eigandi Design Group Italia.
•    Sigríður Sigþórsdóttir, arkitekt, VA arkitektar.
•    Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands.
•    Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður.   
















Yfirlit



eldri fréttir