Áhugaverðustu hönnuðir og arkitektar Norðurlandanna komu saman við afhendingu hinna virtu Forum AID verðlauna sem fram fór í Stokkhólmi þann 3. febrúar sl. Katrín Ólína Pétursdóttir tók á móti verðlaunum fyrir hönnun sína á Cristal Bar í Hong Kong, en auk hennar hlaut hinn margverðlaunaði danski arkitekt Bjarke Ingels stofnandi BIG verðlaun í flokki arkitektúrs, Osckar Zieta verðlaun í flokki vöruhönnunar og nemaverðlaun hlaut hinn norski Daniel Rybakken.
Samkvæmt niðurstöðu dómnefndar er verk Katrínar sérstaklega áhrifaríkt og eftirtektarverð notkun hennar á tvívíðri grafík sem aðaláherslu í þrívíðu rými skapar draumkennt alltumlykjandi umhverfi.
Verðlaunin er mikill heiður fyrir Katrínu Ólínu og mikil hvatning
fyrir íslenska hönnuði og arkitekta almennt, en í dag sem aldrei fyrr
er mikilvægt að íslenskir hönnuðir komu verkum sínum á framfæri á
alþjóðlegum markaði svo að nýta megi íslenskt hugvit sem víðast.
Katrín Ólína er einn af okkar afkastamestu hönnuðum og hefur hún á
undanförnum misserum tekið þátt í ótal verkefnum og sýningum víða um
heim og fangað athygli hönnunarheimsins með verkum sínum auk þess sem
hún hefur starfað fyrir mörg af stærstu hönnunarfyrirtækjum heims.
Mjög ánægjulegt var að sjá hversu margir íslenskir hönnuðir voru
tilnefndir til verðlauna Forum AID að þessu sinni og í öllum þeim
fjórum flokkum sem verðlaunað er fyrir. Í flokknum Besti arkitektúr
2008 voru Kurtogpí Arkitektar, PK Arkitektar og KRADS Arkitektar
tilnefndir. Í flokknum Besti innanhússarkitektúr var Katrín Ólína
tilfnefnd en hún var auk þess tilnefnd í flokki vöruhönnunar fyrir verk
sitt Mestibekkur. Sruli Recht var einnig tilnefndur í flokki
vöruhönnunar og Friðgerður Guðmundsdóttir var tilnefnd í flokki nema
fyrir verk sitt Stuðla.
Verðlaunin voru veitt áttunda árið í röð og stjörnum prýdd alþjóðleg
dómnefnd var skipuð Marcus Fairs einum af stofnendum Icon og Dezeen,
Manuelle Gautrand einum þekktasta arkitekt Frakka, Sean Griffiths einum
af stofnendum FAT Architecture og Dirk Wynants frá Belgian Extremis.
www.katrin-olina.com
http://www.forumaid.com/eng/forum_aid_awards_2009/