Hönnunarsjóði hefur verið falið að úthluta 50 milljónum til átaksverkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs, samkvæmt þingsályktun um tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs vegna Covid-19. Búið er að opna fyrir umsóknir á heimasíðu Hönnunarsjóðs.
Veittir verða styrkir til margvíslegra verkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs og lögð áhersla á verkefni til þróunar, nýsköpunar, menningarlífs og atvinnusköpunar, gjarnan með þverfaglegri nálgun. Markmið og úthlutunarreglur Hönnunarsjóðs gilda við úthlutunina, en tekið verður tillit til aðstæðna vegna Covid-19.
Skilyrði styrkveitingar samkvæmt þingsályktun:
- Verkefnið hefjist eigi síðar en 1. september 2020 og ljúki fyrir 1. apríl 2021.
- Átaksverkefni sem styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði lista og menningar með áherslu á sköpun og virka þátttöku listamanna í menningarlífi landsmanna.
- Verkefni uppfylli grunnmarkmið fjárfestingarátaks um að styðja við eftirspurn og atvinnu til skamms tíma með arðbærum verkefnum.
- Sýnt sé fram á gildi verkefnis og mikilvægi þess fyrir landsmenn.
- Styrkveiting sé til undirbúnings, þróunar og framkvæmd verkefnis.
- Lagðar séu fram ítarlegar upplýsingar um verkefnið auk tímaáætlunar.
Úthlutunin nú hefur ekki áhrif á aðrar úthlutanir úr Hönnunarsjóði 2020.
Umsóknarfrestur rennur út 18. maí og úthlutun er áætluð 29. maí 2020.
Nánari upplýsingar má finna hér.