Fréttir

17.4.2020

Metfjöldi umsókna í Hönnunarsjóð í apríl



Frá úthlutun á ársfundi Hönnunarsjóðs í maí í fyrra.                         Ljósmyndari: Eyþór Árnason

Umsóknarfrestur í Hönnunarsjóð rann út þann 15. apríl síðastliðinn og ljóst er að um metfjölda umsókna er að ræða. 

Alls bárust 126 umsóknir um 237 m. sem er um 30% aukning, en sjóðurinn mun veita 20 m. að þessu sinni. Það er ljóst að ástandið í kjölfar Covid-19 faraldursins hefur áhrif á fjölda umsókna og virðist líka hafa áhrif á verkefnin sem sótt eru um sem snúa mörg að nýsköpun í kjölfar faraldurs og breyttri heimsmynd sem blasir við. Meðal annars má sjá áherslu á rafrænar lausnir, sjálfbærni og matarsóun.



Styrkþegar Hönnunarsjóðs í nóvember 2019 ásamt Birnu Bragadóttur, stjórnarformanni Hönnunarsjóðs.     Ljósmyndari: Víðir Björnsson

Metfjöldi umsókna til Hönnunarsjóðs staðfestir mikilvægi hans, ekki síst á fordæmalausum tímum eins og þessum.  Hlutverk Hönnunarsjóðs er að efla þekkingu og atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi og ráðgjöf.  Hönnunarsjóður veitir jafnframt styrki til kynningar- og markaðsstarf erlendis í því skyni að efla útflutning íslenskrar hönnunar.  Sá mikli fjöldi þeirra umsókna sem sjóðnum hefur borist og gæði umsókna staðfestir kraumandi sköpunarkraft í samfélaginu sem gefur góða von um að framundan séu bjartari tímar.

Birna Bragadóttir, stjórnarformaður Hönnunarsjóðs.

Hönnunarsjóður heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og er tekjustofn hans árlegt framlag sem Alþingi ákveður á fjárlögum. Í ár er framlag til sjóðsins 50 milljónir króna og fer Hönnunarmiðstöð Íslands ehf. með umsýslu sjóðsins.

Úthlutun Hönnunarsjóðs fer fram þann 14. maí næstkomandi. 

Hægt er að sjá dagsetningar Hönnunarsjóðs og frekari upplýsingar á heimasíðu sjóðsins hér.


















Yfirlit



eldri fréttir