Fréttir

3.4.2020

Hugmyndasamkeppni um götugögn á Borgarlínustöðvar




Borgarlínan í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands efnir til hugmyndasamkeppni um götugögn við Borgarlínustöðvar. Skilafrestur er 3. júní og markmið samkeppninnar er að fá fram sterka heildarmynd fyrir Borgarlínustöðvar.

Borgarlínan er samvinnuverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins. Hún mun tengja sveitarfélögin og styrkja samgöngur milli þeirra og innan hvers fyrir sig. 

Markmið og umfang

Markmið samkeppninnar er að fá fram sterka heildarmynd (konsept) fyrir Borgarlínustöðvar. Á stöðvum Borgarlínunnar skal heildstætt útlit einkenna og aðgreina kerfið frá hefðbundnu strætisvagnakerfi. Götugögnin sem einkenna stöðvarnar skulu hafa samræmt yfirbragð en þjóna mismunandi tilgangi á stöðvunum. Tilgangurinn með samkeppninni er að til verði banki af götugögnum sem hægt er að velja úr eftir þörfum á hverri stöð.
Götugögnin munu einkenna Borgarlínuna í öllum sveitarfélögum og stuðla að betri og heildstæðari borgarbrag. Götugögnin skuli stuðla að auknum gæðum í byggðu umhverfi og hafa jákvæð áhrif á upplifun notenda.

Meginmarkmiðin eru

  • Að þróa heildarhugmynd fyrir Borgarlínustöðvar.

  • Að  til verði framleiðslulína af götugögnum sem einkenna munu Borgarlínuna.

  • Að götugagnalínan hafi sterkt heildaryfirbragð.

  • Að götugögnin séu haganlega útfærð með möguleika á mismunandi útfærslum,
    t.d. bekkir með baki, handstoðum, mismunandi lengdum o.þ.h.

  • Að efnisval og útfærsla taki mið af hagkvæmni í framleiðslu, viðhaldi og uppsetningu götugagna.

  • Að götugögnin uppfylli kröfur um algilda hönnun, þá sérstaklega þarfir og upplifun fólks með fatlanir, líkt og sjónskerta, hreyfihamlaða og fleiri. Til hliðsjónar skal hafa leiðbeiningar um algilda hönnun utandyra. Sjá hér.


Þau götugögn sem þarf að útfæra innan línunnar eru:

  • Bekkir

  • Tyllibekkir (leaning rail)

  • Grindverk

  • Handrið

  • Pollar

  • Standar og fletir fyrir upplýsingar, rauntíma og prentaðar.

  • Hjólastæði

  • Ruslastampar

  • Gróðurker

  • Létt skýli (stærri skýli eru undanskilin þessari samkeppni)

Stöðvarpallarnir sjálfir eru ekki hluti af keppninni. Eingöngu er átt við götugögn sem staðsett eru á pallinum og í tengslum við Borgarlínu. Alla jafna skulu götugögnin vera staðsett í götugagnalínu í baklínu stöðvarpallsins og þarf að miða stærðir þeirra útfrá þeirri línu, fjöldi og tegundir götugagna á stöðvum ákvarðast af stærðum og tegundum stöðva (sjá skýringarmyndir hér fyrir neðan).

Áherslur dómnefndar

Dómnefnd metur innsendar tillögur út frá meginmarkmiðum verkefnisins eins og þeim er lýst hér á undan. Dómnefnd leggur eftirfarandi áherslur í mati sínu:

  •  tillaga sýni sterka heildarhugmynd

  •  listrænt gildi tillögu

  •  praktísk hagnýting tillögu

Dómnefnd og ritari dómnefndar
Tilnefndir af Borgarlínu:

  • Björg Fenger, formaður stjórnar Strætó bs. 

  • Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður svæðisskipulagsnefndar 

Tilnefndir af Hönnunarmiðstöð Íslands:

  • Marcos Zotes, arkitekt FAÍ 

  • Rut Káradóttir, innanhússarkitekt FHÍ

  • Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt FÍLA

Ritari dómnefndar og trúnaðarmaður:

  • Haukur Már Hauksson, grafískur hönnuður FÍT

Tilhögun samkeppni

Um er að ræða hugmyndasamkeppni sem verkkaupi, Borgarlínan, heldur. Samkeppnin er opin fagfólki, hönnuðum og arkitektum í samstarfi við aðra fræði- og faghópa og er sérstaklega hvatt til þverfaglegrar nálgunar. 

Stefnt er að því að semja við höfunda vinningstillögu um frekari hönnun og útfærslu tillögunnar. Náist ekki samningar milli Borgarlínu og höfundar vinningstillögunnar innan sex (6) mánaða frá tilkynningu um niðurstöðu samkeppninnar er Borgarlínu heimilt, en ekki skylt, að ganga til samninga við höfunda annarra keppnistillagna um útfærslu og uppsetningu tillagna þeirra. 

Haukur Már Hauksson er trúnaðarmaður og umsjónarmaður samkeppninnar.

Öllum fyrirspurnum og athugasemdum skal beint til trúnaðarmanns.

Fyrirspurnir

Tveir fyrirspurnatímar eru áætlaðir. Fyrri frestur til fyrirspurna í rennur út á miðnætti þriðjudagsins 10. apríl 2020 og sá seinni mánudaginn 20.apríl 2020. Fyrirspurnum skal beint til trúnaðarmanns á netfangið: samkeppni@honnunarmidstod.is, sem mun leggja afrit af þeim fyrir dómnefnd og samkeppnishaldara. Gert er ráð fyrir að svör við fyrri fyrirspurnum liggi fyrir fimmtudaginn 16. apríl 2020 og þeim síðari föstudaginn 28.apríl 2020, og þær birtar á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvar Íslands honnunarmidstod.is.

Tungumál

Tungumál samkeppninnar er íslenska. Öllum tillögum skal skilað á íslensku. Dómnefndarálit verður gefið á íslensku. 


Ath! uppfærður texti frá 28. apríl. 

Skilaform og afhending
Tillögum skal skila á tillöguörkum í stærðinni A1 (594x841 mm). Skila má allt að 4 tillöguörkum og skal gera grein fyrir uppröðun þeirra með númerum í hægra horni niðri. Tillöguarkir skal hengja lóðrétt hlið við hlið. Á tillöguörk með greinargerð má einnig vera myndefni (en þarf ekki). Greinargerð skal að hámarki vera 2.000 orð. Í henni skal að minnsta kosti eftirfarandi koma fram:
● Meginhugmynd tillögunnar, helstu forsendur hennar ásamt markmiðum og
áherslum tillöguhöfunda
● Lýsing á götugögnum, efnisvali og nánari útfærslum
● Lýsing á því með hvaða hætti:
– götugögnin tengjast innbyrðis
– þau geta aðlagast mismunandi aðstæðum á stöðvum

Tillögum skal skilað á pdf-formi í gegn um WeTransfer á netfangið samkeppni@honnunarmidstod.is fyrir kl. 17 miðvikudaginn 3. júní 2020.

Tillöguarkir skulu að minnsta kosti innihalda eftirfarandi:
● Útlitsmyndir sem sýna heildarhugmynd og ytra útlit.
● Myndir af götugögnum á hvítum bakgrunni.
● Myndir af götugögnum staðsettum í borgarumhverfi.
● Skýringarmyndir, skurðmyndir, fjarvíddar- og þrívíddarmyndir að vali höfunda.
● Greinargerð sem nánar er lýst hér fyrir ofan.

Tillögum skal skilað á pdf-formi í möppu merktri með sex tölustafa auðkennisnúmeri sem þátttakendur velja sjálfir. Í möppunni skal einnig vera pdf-skjal með upplýsingum um þátttakendur ásamt nafni, netfangi og símanúmeri tengiliðar hópsins. 

Tillögu er veitt viðtaka berist hún innan tilgreinds skilafrests og nafnleyndar sé gætt.
Borgarlínan áskilur sér rétt til þess að efna til sýningar á innsendum tillögum.


Tímalína samkeppni:

3. apríl 2020: Upphaf samkeppni.

10. apríl 2020: Fyrri fyrirspurnafrestur

16. apríl 2020:  Svör við fyrirspurnum

20. apríl 2020: Seinni fyrirspurnafrestur

28. apríl 2020: Svör við fyrirspurnum

3. júní 2020:  Skil

16. júní 2020:  Dómnefnd lýkur störfum

25. júní 2020:  Úrslit kynnt

Úrslit og verðlaun

Áætlað er að dómnefnd ljúki störfum 16. júní 2020. Þegar dómnefnd hefur formlega lokið störfum verður nafnleynd rofin og þátttakendum tilkynnt um niðurstöður dómnefndar. Dómnefndarstörfum lýkur með dómnefndaráliti og útnefningu vinningstillögu.

Veitt verða verðlaun, 2.000.000 kr. (+vsk.) fyrir vinningstillögu 1.000.000 (+vsk.) fyrir annað sætið og 500.000 kr. (+vsk.) fyrir þriðja sæti. Ef dómnefnd telur enga innsenda tillögu koma til greina til nánari útfærslu áskilur hún sér rétt til að hafna öllum tillögum og vinningstillaga verður ekki útnefnd. Niðurstaða dómnefndar er endanleg.

Haldin verður sýning á öllum keppnistillögum, sem uppfylla skilyrði keppninnar, á næsta HönnunarMars. Tillögurnar verða sýndar undir höfundarnafni.

Hagnýting keppnistillagna

Um tólf mánaða skeið eftir lyktir samkeppninnar á Borgarlínan einkarétt á notkunarrétti á verðlaunaðra tillagna. Að þeim tíma loknum er höfundum tillagna, sem ekki hefur verið samið við sérstaklega, frjálst að ráðstafa tillögu sinni. Tillöguhöfundar eiga allan höfundarrétt að tillögum sínum, sbr. höfundarlög nr. 73/1972.

Nánari upplýsingar um Borgarlínuna má finna hér.

Skýringarmyndir

Heildarmyndin:

Línan skal skapa skýra heildarmynd þegar ólíkum götugögnum er raðað eftir stöðvarpallinum. Mikilvægt er að hæðir og form götugagnanna samsvari sér vel í heildarmyndinni og skapi rólegt yfirbragð. Götugögnin skulu einkenna stöðvar borgarlínu og vera auðþekkjanleg í umhverfinu.



Skýli

Biðskýli þurfa að vera til staðar á öllum stöðvum. Skýlin þurfa að vera með góðu útsýni í allar áttir og vera byggð í einingum sem hægt er að stækka og minnka á lengdina. Þau þurfa að vera bæði til í opnum og lokuðum útfærslum og hægt að fella inn í þau bekki og tyllibekki ásamt upplýsingaflötum (ekki er ætlast til að þar séu auglýsingafletir). Aðgengi allra skal tryggt í skýlinu. Þak skýlis má vera úr ógegnsæju efni. Gæta þarf að því að 1.5 m göngusvæði á palli haldist óskert.


Bekkir 

Á öllum stöðvum skal vera gert ráð fyrir bekkjum sem raðast eftir stöðvarpallinum. Á bekkjunum þarf að vera bak og á þeim á að vera möguleiki til að setja arma fyrir þá sem þurfa að nýta báðar hendur til að reisa sig upp. Bekkina á að vera hægt að stytta og lengja eftir þörfum á stöðinni.


Tyllibekkir (leaning rail)

Bekkir sem hægt er að halla sér að. Tyllibekkir væru byggðir í einingum sem hægt er að stækka og minnka á lengdina eftir aðstæðum á hverri stöð. 


Grindverk, handrið og pollar

Þetta eru þau gögn sem halda aðskilnaði á milli farartækja og fótgangandi. Mikilvægt að einfalt sé að skipta út og hægt sé að nýta samhliða öðrum götugögnum og tengja þeim.


Standur fyrir upplýsingar, rauntíma og prentaðar

Hér er átt við festingar og fleti fyrir upplýsingaspjöld og skjái. 


Hjólastandar

Standarnir þurfa að geta rúmað bæði hjól og rafskútur. 


Ruslastampar 

Stamparnir verða að geta tekið á móti úrgangi til flokkunar og vera í a.m.k. tveim útfærslum, frístandandi eða upp við vegg.


Staurar fyrir lýsingu

Átt er við staurinn sjálfan en ekki lýsinguna. Gert er ráð fyrir að lýsing á stöðvunum verði gerð í samráði við lýsingarhönnuð.


Gróðurker

Gróðurker sem er hægt að skala eftir þörfum. Fyrir sumarblóm og fjölæringa og smærri gróður.

Hér er linkur til að hlaða niður skýringarmyndum í betri upplausn
.

















Yfirlit



eldri fréttir