Fréttir

4.3.2020

DesignTalks 2020 - Matthew Woolsey, 66°Norður og  Lucy Black-Swan & Andres Colmenares, IAM




Alþjóðlegur framkvæmdastjóri 66°Norður, Matthew Woolsey og Lucy Black-Swan & Andres Colmenares, stefnumótandi framtíðarrýnar og hönnuðir IAM eru meðal þeirra sem koma fram á DesignTalks 2020 í Hörpu þann 26. mars næstkomandi.

„Hvers vegna að vaxa?“ 
Matthew Woolsey



Matthew Woolsey
er alþjóðlegur framkvæmdastjóri íslenska hönnunarfyrirtækisins 66°Norður en hann hefur fjölbreyttan bakgrunn úr tæknigeiranum, blaðamennsku, fjölmiðlum, netverslun og tísku. Nú síðast gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra Net-a-Porter, stærstu netverslunar heims í lúxusvöru.

Woolsey starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Group SJR, stafrænni fjölmiðlaráðgjöf í New York, nú í eigu WPP, eins stærsta auglýsingafyrirtækis heims og sem blaðamaður hjá tímaritinu Forbes. Matthew hóf feril sinn í San Francisco sem tölvuleikjaforritari hjá fyrirtækjum á borð við Walt Disney og Macromedia. Eins og stendur er Matthew sérfræðingur-in-residence hjá frumkvöðlahraðli Oxford Foundry, Oxford University Saïd School of Business. 

Woolsey er náttúrubarn og hefur mikinn áhuga á því hvernig má breyta kauphegðun með samruna hönnunar, viðskipta og náttúruverndar og þannig bæta heiminn.

„Hvað ef við hönnum fyrir auðmýkt? Fjölbreytileika? Ábyrgð? Samkennd og umburðarlyndi? Samstöðu?“ Lucy Black-Swan, IAM



Lucy Black-Swan og Andres Colmenares eru stefnumótandi framtíðarrýnar, hönnuðir og stofnendur IAM, síbreytilegs vettvangs þar sem þau sinna ráðgjöf í stefnumótun og framtíðarrýni, standa fyrir röð árlegra viðburða á alþjóðavettvangi, reka sköpunarstofu og hafa byggt upp alþjóðlegt samfélag með eitt langtímamarkmið: að bæta innbyrðis tengsl fólks, stafrænnar tækni og plánetunnar. 

Þau nota  aðferðir framtíðarfræði til að kanna, spá fyrir og takast á við fjölþættar afleiðingar internetsins, stafrænnar tækni og framtíðarsamfélaga á jörðinni með gagnrýni og von að leiðarljósi. Þau sinna ráðgjöf og þróa hönnunarverkefni fyrir fjölbreytt fyrirtæk og stofnanir s.s. menningarstofnanir, háskóla og fjölmiðlafyrirtæki á borð við Mobile World Capital Barcelona, Tate, University of Arts London, Red Bull, ELISAVA og BBC.
IAM stendur einnig fyrir viðburðum á borð við ráðstefnur um framtíð internetsins og s.k. Internet Citizenships Forum. Nálgun þeirra byggir á áratugalöngum rannsóknum á því hvernig þróun internetsins sem menningarfyrirbæris er að móta framtíð alls.

DesignTalks, lykilviðburður HönnunarMars, er spennandi ráðstefna þar sem fram koma alþjóðlegir hönnuðir, arkitektar og aðrir skapandi hugsuðir. Í ár undir yfirskriftinni Nýr heimur, nýjar leiðir þar sem allir fyrirlesararnir með einum eða öðrum hætti að bregðast við stöðu mála í heiminum í dag.

Fyrirlesararnir fást við ólík viðfangsefni, frá grafík til arkitektúrs sem stuðlar að endurnýjun og náttúrulegum vexti. Hönnun þeirra er ætlað að auðvelda notendum að kafa djúpt í málin og hugsa hluti upp á nýtt; bæta andlega heilsu og auka lífsgæði, auk þess sem hún gerir tæknina náttúrulegri og virkjar ímyndunaraflið til nýrra framtíðarmöguleika.

Þeir sem koma fram  miðla og varpa ljósi á dulin vandamál líkt og rafrusl og rannsaka landpólitísk úrlausnarefni. Verkefni þeirra taka á áskorunum stafræns hagkerfis og samfélagsmiðla, og móta að auki borgarskipulag og samfélög til framtíðar. Með þeim er sýnt fram á tækifæri í lífhönnun, stuðlað að umburðarlyndi og hvatt til þess að við sameinumst um að horfa björtum en gagnrýnum augum til framtíðar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra Íslands setur DesignTalks 2020. Dagskrárstjórn er í höndum Hlínar Helgu Guðlaugsdóttur, sem hefur stýrt viðburðinum frá árinu 2015. Hún mun einnig kynna dagskránna ásamt Robert Thiemann, stofnanda og forstjóra FRAME útgáfunnar.
„Þetta er innblásið samtal sem undirbýr okkur fyrir nýjan áratug.“ Hlín Helga, stjórnandi DesignTalks.

Fylgstu með því á næstu vikum munum við kynna fleiri nöfn sem ætla að veita innblástur á DesignTalks 2020 í Hörpu. Lestu meira hér.
 
Uppselt hefur verið á viðburðinn undanfarin ár - tryggðu þér miða hér.
 
Hér er viðburðurinn á Facebook.

DesignTalks er skipulagt af Hönnunarmiðstöð Íslands og styrkt af Arion banka og Reykjavíkurborg.

















Yfirlit



eldri fréttir