Fréttir

29.10.2008

Ráðstefna - Frá hönnun til útflutnings

Fjölmennt var á kynningarráðstefnu þar sem kynnt voru fyrstu þrjú fyrirtækin sem valin hafa verið til þátttöku í verkefninu Frá hönnun  til útflutnings. Útflutningsráð Íslands í samstarfi við Hönnunarmiðstöð standa fyrir verkefninu en ráðstefnan var haldin til að vekja athygli á mikilvægi hönnunar. 

Markmið verkefnisins ere að leiða saman hönnuði og fyrirtæki í samvinnu um hönnun og framleiðslu á útflutningsvörum, þar sem tilgangurinn felst í því að efla þátt hönnunar innan framleiðslufyrirtækja, að innleiða sýn hönnunar við þróun á vöru og þjónustu og að skapa ný tækifæri í útflutningi. Þátttakendur í verkefninu fá 50% mótframlag vegna kostnaðar við vinnu hönnuðar samkvæmt úthlutunarreglum, en fagráð velur fyrirtæki úr hópi umsækjenda. Umsóknarfrestur fyrirtækja var framlengdur til 20. október, en í framhaldi af því verður auglýst eftir hönnuðum sem geta komið með hugmyndir fyrir þau fyrirtæki sem valin verða.

Yfir 100 manns sóttu ráðstefnuna en aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var hollenski hönnuðurinn Max Barenbrug sem kynnti hönnunar-, framleiðslu- og markaðsferli barnavagnsins Bugaboo. Max Barenbrug er þekktastur fyrir hönnun Bugaboo sem nú er ein mest selda barnakerra í heimi og úr varð milljarða evra fyrirtæki þar sem kerran er táknmynd hins nútímalega karlmanns og stöðutákn nútímaforeldra. Fyrirtækið hefur verið markaðsráðandi í heiminum sl. átta ár. Barenbrug kynnti fyrirtækið og var áhugavert að heyra af löngu þróunarferli og markaðssetningu barnavagnsins sem og núverandi stöðu fyrirtækisins.

Aðrir fyrirlesara voru Hrafnkell Birgisson vöruhönnuður sem kynnti verkefnið 8+8 MADE IN HAFNARFJÖRÐUR og þær Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir og Brynhildur Pálsdóttir sem kynntu fyrirtækið Vík Prjónsdóttir og samstarf þess við prjónaframleiðandann Víkurprjón á Vík í Mýrdal.

Þau fyrirtæki sem nú þegar hafa verið valin til þátttöku úr fyrra umsóknarferli verkefnisins eru Fossadalur, Glófi og Villimey, en fagráð komst að þeirri niðurstöðu að þessir þrír umsækjendur falli sérstaklega vel að forsendum verkefnisins um vænleika til vöruþróunar og útflutnings.

Í fagráði verkefnisins eru: Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar, Helga Viðarsdóttir markaðstjóri 66 Norður og Hrafnkell Birgisson iðnhönnuður.

















Yfirlit



eldri fréttir