Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður tók á móti hinum virtu Söderbergs hönnunarverðlaunum við hátíðlega athöfn í Röhsska safninu í Gautaborg, þann 4. nóvember sl. Verðlaunin nema einni milljón sænskra króna og segir Steinunn verðlaunin vera gott dæmi um hversu mikilvægt það er að leggja áherslu á nýsköpun á Íslandi. Í kjölfar verðlaunanna opnar sýning í Röhsska safninu á hönnun Steinunnar og stendur sýningin til 22. febrúar 2009.
Verðlaunin eru talin ein helsta viðurkenning sem hönnuður getur hlotið og eru þau falleg viðbót í þann rósavönd sem Steinunn státar af í hnappagati sínu. Í átliti dómnefndar segir m.a. "Steinunn Sigurðardóttir hefur með íslenska náttúru sem innblástur fært Norðurlöndunum virtan fulltrúa á hinu alþjóðlega tískusviði." Þetta er í fyrsta sinn sem fatahönnuður hlýtur Söderbergsverðlaunin.
Í tilefni verðlaunanna sagði Steinunn m.a. í samtali við Fréttablaðið: "Mér finnst verðlaunin færa mikla von og minna á að við eigum ekki að leggja árar í bát. Mér finnst rosalega mikilvægt að það sé lögð meiri áhersla á nýsköpun á Íslandi og mér finnst þessi verðlaun gott dæmi um það."
Steinunn er enginn nýgræðingur á hinu alþjóðlega tískusviði, þar sem hún býr að þeim reynslubrunni að hafa starfað með fremstu fatahönnuðum heims, Gucci, Ralph Lauren, Calvin Klein og La Perla. Árið 2000 stofnaði hún eigið fyrirtæki og hóf að framleiða tískufatnað undir eigin merki. Fötin eru nátengd íslenskri náttúru og menningu, dramatísk og víða má sjá skírskotanir í íslenska þjóðbúninginn í hönnun hennar.
Steinunn hefur hafið íslenskt handverk til vegs og virðingar. Hún hefur sýnt og sannað að íslenskt handverk og hugvit eru verðmætar útflutningsvörur, en fatalína Steinunnar er seld í Bandaríkjunum, Japan, á Norðurlöndunum og víðar.