12.10.2018

Samkeppnisúrslit | Verk í náttúru Þeistareykja



Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvarinnar, Jón Grétar Ólafsson arkitekt, höfundur vinningstillögunnar, Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður Landsvirkjunar og formaður dómnefndar og Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.


Jón Grétar Ólafsson arkitekt hlaut fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um tillögu að hönnuðu verki, eða listaverki, í nágrenni við jarðvarmastöð Landsvirkjunar að Þeistareykjum.

Tillaga hans ber heitið Römmuð sýn. Niðurstöður voru kynntar, þriðjudaginn 9. október 2018 kl. 17, í Hönnunarsafni Íslands.

Í umsögn dómnefndar segir m.a.:
„Römmuð sýn er kröftug og djörf tillaga sem vekur athygli á Þeistareykjum sem áningarstað.

Í verkinu er landslagið hafið upp og rammað inn á skemmtilegan hátt. Verkið býr yfir aðdráttarafli og vekur forvitni þeirra sem leið eiga um svæðið. Upplýsingar um nærumhverfið auka á upplifun verksins. Verkið er ekki tæknilega flókið og vel framkvæmanlegt.“



Sýning í Hönnunarsafni Íslands

Við sama tilefni var opnuð sýning á þeim fjórum tillögum sem fóru áfram í síðari hluta keppninnar, en hún verður opin almenningi dagana 10.-14. október og verður aðgangur gjaldfrjáls.

Í  safninu stendur nú einnig yfir sýning á ævistarfi arkitektsins Einars Þorsteins Ásgeirssonar (1942–2015). Einar ánafnaði Hönnunarsafninu allt innihald vinnustofu sinnar, en hann var brautryðjandi í rúmfræðirannsóknum og sérfræðingur í margflötungum. Einar þykir hafa verið á undan sinni samtíð hvað varðar hugmyndir um sjálfbærni, samanber kúluhúsin sem hann hannaði og voru reist upp úr 1980, en fyrsta kúluhúsið sem reist var hér á landi var borholuhús við Kröflu.

Markmið að auka upplifun gesta

Landsvirkjun stóð fyrir hugmyndasamkeppninni í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands, en auglýst var eftir tillögu að hönnuðu verki, eða listaverki, sem staðsett yrði í náttúru Þeistareykja. Markmið keppninnar var að fá fram tillögu að verki sem gæti aukið á upplifun þeirra sem leið eiga um svæðið.

Við mat á tillögum var horft til þess að  hugmyndin væri áhugaverð, frumleg og metnaðarfull.  Einnig að tillagan félli að umhverfi Þeistareykja og hefði skírskotun til náttúru, sögu og/eða einkenna svæðisins og tæki tillit til umhverfis- og vistfræðiþátta.  Þá þurfti í tillögunni að felast ráðdeild þannig  að raunhæft væri og framkvæmanlegt að útfæra hana í fullri stærð.

Hefð frá stofnun Landsvirkjunar

Sú hefð innan Landsvirkjunar, að gerð séu listaverk í tengslum við byggingu helstu mannvirkja á vegum fyrirtækisins, á rætur að rekja til stofnunar þess og byggingar Búrfellsstöðvar á síðari hluta sjöunda áratugar síðustu aldar. Ólíkar leiðir hafa verið farnar í því að fá listamenn til samstarfs um myndskreytingu eða gerð útilistaverks; ýmist hefur verið haft samband við tiltekinn listamann, efnt til opinnar samkeppni eða lokaðrar verksamkeppni.

Sýning á tillögunum verður sett upp í Safnahúsinu á Húsavík og mun standa yfir dagana 27. október til 31. desember 2018. Hún er opin öllum og er aðgangur ókeypis.

Smelltu hér til að sjá fleiri myndir!