14.5.2018

Svör við spurningum vegna samkeppni um verk að Þeistareykjum



Landsvirkjun í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands efnir til hugmyndasamkeppni um hannað verk, eða listaverk, í nágrenni Þeistareykjastöðvar. Hér eru svör við þeim spurningum er bárust keppnisritara fyrir 17. apríl 2018:   
  • Er það í lægi að senda ljósmynd af hugmynd eða lítið módel?
Svar: í keppnislýsingu kemur fram að „Tillögum ber að skila inn á tveimur til þremur A3 blöðum þar sem verkið er sýnt með auðskiljanlegum og skýrum hætti. Stutt greinargerð um hugmyndina að baki verkinu, efnisval og uppbyggingu, skal fylgja á einu A4 blaði.” Ekki er gert ráð fyrir að módelum sé skilað inn í fyrri hluta keppninnar en ekkert er því til fyrirstöðu að senda inn ljósmynd eða ljósmyndir af módelum til skýringar sem hluti af A3 blöðum.


  • Fær listamaðurinn sem er með vinningstillöguna greiddar höfundarlaun? Ef svo er hversu margar % af heildarkostnaði er gert ráð fyrir höfundarlaunum? T.d ef verkið kostar 40 milljónir mun listamaðurinn fá 17% af þeirri upphæð greiddar í höfundarlaun?  Fær listamaðurinn greitt fyrir vinnuframlag við uppsetningu verksins ef svo er hvað er greitt á tíman?
Svar: Í samkeppnislýsingunni kemur fram að tillöguhöfundar eiga allan höfundarétt að tillögum sínum, sbr. höfundarlög nr.73/1972 og því verður samið sérstaklega um höfundarlaun við vinningshafa. Einnig kemur þar fram að stefnt er að því að semja við vinningshafa um frekari hönnun, útfærslu og uppsetningu tillögunnar.


  • Mig langar að fá upplýsingar um hvort tillaga,sem lýsir útfærslu verksins eingöngu í rituðu máli, yrði tekin gild í fyrri hluta samkeppninnar, þegar hugmyndir verða valdar til nánari útfærslu.
A.t.h. stuðningsgögn í formi grófs riss sem myndu skýra hvert verkið stefndi án þess að raunveruleg útlitsteikning væri um að ræða gætu hugsanlega orðið fylgigögn, en möguleikar hugmyndarinnar fyrst og fremst skýrðir í texta.
Heillandi teikningar og módel eru talsverð vinna og jafnvel þörf á ráðgjöf verkfræðings á lokastigi.
Svar: Ekkert því til fyrirstöðu að verkinu sé lýst í rituðu máli og grófar skissur af verkinu fylgi með á tveimur til þremur A3 blöðum.

  • Við tókum eftir samkeppninni um hannað verk eða listaverk í nágrenni Þeistareykjavirkjunar - og að upplýsingatextinn er á íslensku. Vinsamlegast upplýsið hvort samkeppnin er opin erlendum fyrirtækjum eða eingöngu bundin við Ísland.
Svar:  Samkeppnin er opin hönnuðum, arkitektum, landslagsarkitektum og listamönnum bæði íslenskum og erlendum. Samkeppnin fer fram á íslensku.


  • Þarf að skrá sig til þátttöku í fyrri hluta samkeppninnar? Ég er myndlistarmaður og vöruhönnuður og hef áhuga á að taka þátt.
Svar: Ekki þarf að skrá sig sérstaklega til þátttöku í samkeppninni. Samkeppnin er opin hönnuðum, arkitektum, landslagsarkitektum og listamönnum.


  • Ég er tilbúin með módel af hugmynd og ljósmyndir. Er það nóg í upphafi samkeppni. Hvert og hvenær á að senda það til ykkar?
Svar: Ekki er gert ráð fyrir að módelum sé skilað inn í fyrri hluta keppninnar en ljósmynd eða ljósmyndir af verkinu er skýra verkið gætu vel á átt við sem hluti af A3 blöðum. (sjá einnig svar við spurningum 1 og 3)


Eins og fram kemur í keppnislýsingu á að skila tillögum til Hönnunarmiðstöðvar Íslands í umslagi merktu: „VERK AÐ ÞEISTAREYKJUM“ Aðalstræti 2, 101 Reykjavík, fyrir kl. 16 þann 1. júní 2018.

Nánar um samkeppnina á www.landsvirkjun.is/samkeppni