20.2.2018

Hugmyndasamkeppni um aðkomutákn fyrir Mosfellsbæ



Mosfellsbær í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands efnir til samkeppni um hönnun á nýju aðkomutákni / einkenni til að marka þrjár aðkomur að bænum.

Verkefnið

Mosfellsbær leitar eftir hugmyndum um nýtt aðkomutákn sem sett verður upp við aðkomuleiðir inn í Mosfellsbæ. Aðkomutákninu er ætlað að vekja athygli á Mosfellsbær og marka það landsvæði sem honum tilheyrir.

Leitað er að tákni fyrir bæinn sem er ekki eingöngu ætlað að marka aðkomustaði við bæjarmörk heldur verður þema þess einnig notað á annan hátt eins og til dæmis við gerð listmuna, bréfsefnis, vefsíðu o.fl.

Í ágúst 2017 voru liðin 30 ár frá því að Mosfellsbær fékk kaupstaðarréttindi. Ákveðið var af því tilefni að efna til þessarar hugmyndasamkeppni um aðkomutákn og er stefnt að því að tilkynna og vígja vinningstillöguna á 31 árs afmæli bæjarins í ágúst næstkomandi.

Unnið verður með vinningshafa að frekari hönnun og útfærslu tillögunnar og fer samkeppnin fram samkvæmt samkeppnislýsingu, fylgigögnum og samkeppnisreglum Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

Markmið

Helstu áherslur sem horft verður til í mati á tillögum keppenda:

Aðkomutáknið þarf að vera grípandi, falla vel að umhverfinu, vera dæmi um góða hönnun og listsköpun, auk þess að vera lýsandi fyrir það sem einkennir Mosfellsbæ.
Sérstaklega skal horft til einstakrar náttúru bæjarlandsins.




Viðmið

Auk framangreindra markmiða verður horft til neðangreindra viðmiða við mat á úrlausn og hönnun:

Óskað er eftir því að hönnuðir sýni skýrt fram á efnisval og með hvaða hætti megi framleiða táknið.

Vinningshugmyndin verður framkvæmd á þremur bæjarmörkum að Mosfellsbæ þ.e. frá Reykjavík, frá Þingvallavegi og frá Kjalarnesi.

Þátttaka


Samkeppnin er opin landslagsarkitektum, arkitektum, menntuðum hönnuðum og menntuðum myndlistarmönnum. Ef teymi vinnur saman að tillögunni er nóg að einn úr teyminu uppfylli menntunarkröfur. Samningur verður gerður við vinningshafa um frekari úrfærslu hugmyndarinnar, notkunarrétt og framkvæmd. Verkkaupa er heimilt að leita samninga um kaup á öðrum tillögum t.d. vegna minjagripagerðar.

Verðlaunafé

Fyrstu verðlaun eru samtals 2.000.000 króna og verða veitt fyrir þá tillögu sem valin verður í fyrsta sæti. Dómnefnd er þar að auki heimilt að veita sérstakar viðurkenningar.

Dómnefnd

Tilnefnd af Mosfellsbæ:
  • Hreiðar Örn Zoega Stefánsson, formaður menningamálanefndar
  • Rafn Hafberg Guðlaugsson, menningamálanefnd

Tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands:
  • Inga Rut Gylfadóttir, landslagsarkitekt FÍLA
  • Ólafur Óskar Axelsson hjá Vaarkitektum arkitekt AÍ
  • Birna Geirfinnsdóttir, LHÍ grafískur hönnuður FÍT

Dómnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum tillögum.



Keppnisritari

Ritari keppninnar er tengiliður við þátttakendur og milli skipuleggjanda keppni og dómnefndar. Auglýst var að fyrirspurning þyrftu að berast fyrir þriðjudaginn 27. febrúar á veffangið: samkeppni@honnunarmidstod.is.

það barst bara ein fyrirspurn, í tveimur liðum:


    1.    Er hægt að stinga upp á öðrum staðsetningum en hefur verið skilgreint í samkeppnisskjölum?
    2.    Er hægt að stinga upp á fækkkun tákna?


Svar: Allar hugmyndir eru að sjálfsögðu vel þegnar. Þess ber þó að geta að samkeppnin snýr að því að hanna aðkomutákn fyrir Mosfellsbæ m.a. í þeim tilgangi að fólk átti sig á því hvar bæjarmörkin liggja. Það er því ólíklegt að veruleg frávik frá skilgreindri staðsetningu fái brautargengi.


Samkeppnisgögn og skil

Þátttakendum er í sjálfsvald sett með hvaða hætti tillagan er sett fram en gögn þurfa að vera auðskilin og hugmyndin að baki tillögunnar skýr.

Tillögum skal skila í lokuðu umslagi merktu dulnefni í Hönnunarmiðstöð Íslands, Aðalstræti 2, 101 Reykjavík, fyrir kl. 12:00, Þriðjudaginn 10. apríl 2018. Í umslaginu skal vera annað lokað umslag merkt dulnefni en inni í því þarf rétt nafn hönnuðar, heimilisfang og sími að koma fram.

  • Ef módel eða skúlptúr fylgir skal það vera innpakkað og merkt tillögunni.
  • Ekki verður hægt að tryggja að keppendur fái tillögur sínar afhentar að keppni lokinni.
  • Mosfellsbær áskilur sér rétt til þess að efna til sýningar á innsendum tillögum.

www.mosfellsbaer.is