28.2.2017

Hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Laugavegs og Skipholts


Laugavegur fyrir ofan Hlemm. Skipulagssvæðið sem samkeppnin tekur til afmarkast m.a. af Nóatúni til vesturs og Skipholti og Brautarholti til austurs.

Reykjavíkurborg og Arkitektafélag Íslands auglýsa nú eftir þátttakendum fyrir forval lokaðrar hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag svæðis við Laugaveg/Skipholt.

Frestur til að sækja um í forvalið er til 6.mars.


Til stendur að fara í hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag lykilsvæðis meðfram samgöngu- og þróunarásnum við Laugaveg sem tekur m.a. til Heklureitsins svokallaða og Skipholts. Skipulagssvæðið sem samkeppnin tekur til afmarkast af Nóatúni til vesturs, Brautarholti og Skipholti til suðurs, Bolholti til austurs og Laugavegi til norðurs. Skipulagsmörkin við Laugaveg ná yfir alla götuna þar sem huga þarf að framtíðarlegu Borgarlínunnar og mögulegri uppbyggingu meðfram götu sunnan og norðan til. Skipulagssvæðið er alls um sex hektarar að stærð.

Hugmyndasamkeppnin gengur út á að fá fram spennandi og framsæknar hugmyndir um skipulag og hönnun á svæðinu. Hugmyndirnar þurfa að vera í samræmi við markmið Aðalskipulagsins um t.d. hæðir húsa, gæði í manngerðu umhverfi og grænar lausnir. Þá þarf að sýna sannfærandi tengingar á milli svæða og að tekið sé tillit til aðliggjandi byggðar með styrkingu svæðisins til að skapa ný tækifæri til búsetu og þjónustu á svæðinu. Leggja á áherslu á þjónustu á jarðhæðum og ný og spennandi almenningsrými.

Markmiðið er að stuðla að uppbyggingu þéttrar, blandaðrar og vistvænnar byggðar með íbúðum, verslun og annarri atvinnustarfsemi sem tengd verður öflugum almenningssamgöngum fyrirhugaðrar Borgarlínu. Gert er ráð fyrir að þátttakendur komi með tillögur að ásýnd Laugavegs sem borgargötu í samræmi við meginstefnu Aðalskipulags Reykjavíkur 2010–2030.

Leiðarljós, markmið og tilhögun samkeppninnar ásamt öllum nánari upplýsingum um lágmarkskröfur og hæfni þátttakenda koma fram í drögum að keppnislýsingu sem er aðgengileg hér að neðan.

Nánar hér.