20.1.2016

Vinningstillaga fyrir haustsýningu Hafnaborgar 2016 tilkynnt


Mynd: Theresa Himmer

Tillaga Rúnu Thors, iðnhönnuðs, og Hildar Steinþórsdóttur, arkitekts, varð fyrir valinu fyrir haustsýningu í Hafnarborg 2016.

Sýningartillagan sem ber vinnutitilinn Keramik+ snýst um að kanna efniseiginleika keramiks þar sem þær munu fá listamenn og hönnuði til að kanna samspil keramiks við önnur efni og nýjar og gamlar aðferðir.

Þær Hildur Steinþórsdóttir arkitekt og Rúna Thors vöruhönnuður skipa hönnunarteymið TOS. Þær hafa unnið saman síðan 2011 og mest vinna þær í steinsteypu og trefjasteypu.

TOS nálgast viðfangsefni sín í gegnum leik og tilraunir. Í vinnu sinni leggja þær áherslu á opið og skapandi ferli. Í upphafi verks elta þær það sem heillar og treysta aðferðafræðinni til að leiða þær á óvæntar slóðir.


Hildur Steinþórsdóttir og Rúna Thors

TOS hlutu verkefnastyrk úr Hönnunarsjóði Íslands síðla árs 2015 auk starfslauna hönnuða til tveggja mánaða hvor árið 2016. Styrkirnir verða nýttir til áframhaldandi þróunar á verkefninu Inngangur að efni og tilrauna með trefjasteypu í verksmiðju Swiss Pearl í Sviss.

Rúna Thors útskrifaðist úr vöruhönnun við Design Academy Eindhoven í Hollandi árið 2009 og Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands árið 2015.

Hildur Steinþórsdóttir útskrifaðist sem arkitekt árið 2008 frá Konunglega arkitektaskólanum í Kaupmannahöfn og lauk löggildingarprófi í mannvirkjahönnun árið 2010. Einnig hefur Hildur kennslufræði réttindi frá Listaháskóla Íslands. Síðastliðið haust kynnti Hafnarborg í sjötta sinn, verkefni sem hafði það markmiði að gefa sýningarstjórum kost á að senda inn tillögu að haustsýningu í Hafnarborg 2016.

Höfundar tillaganna sem bárust eiga að baki ólíkan náms og starfsferil sem tengist myndlist og menningartengdum verkefnum en hafa þó ekki tekið að sér hlutverk sýningarstjóra áður. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.