10.3.2014

Samkeppnisúrslit | Kennileiti fyrir heimskautsbauginn í Grímsey

Niðurstaða dómnefndar í samkeppni um nýtt kennileiti fyrir heimskautsbautinn í Grímsey var tilkynnt í dag, mánudaginn 10. mars kl.14 í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Dómnefnd var einróma um vinningstillöguna, sem er unnin af Kristni E. Hrafnssyni og Studio Granda.

Samkeppnin var opin hönnuðum, arkitektum og myndlistamönnum. Skilafrestur gagna var til 31. janúar 2014 og verðlaunaféð var 1.000.000 kr.

Í framhaldinu verður unnið með vinningshafum um að útfæra vinningstillöguna í samstarfi við verkkaupa, smíða verkið og koma því fyrir út í Grímsey. Ekki verður hægt að hefja þennan áfanga fyrr en búið er að afgreiða umsóknir í Framkvæmdasjóð Ferðamannastaða á þessu ári en áframhald verkefnisins byggist á að styrkur fáist í síðasta áfanga þess.

Leitað var að myndrænu tákni fyrir eyjuna sem gæti orðið að aðdráttarafli í sjálfu sér og hægt væri að nota á ólíka vegu, t.d. við gerð minjagripa. Kennileitið átti að styrkja Grímsey og stöðu hennar sem nyrsta odda Íslands, á heimskautsbaugnum. Unnið verður með vinningshafa að frekari hönnun og útfærslu tillögunnar. Samkeppnin fór fram samkvæmt samkeppnislýsingu, fylgigögnum og samkeppnisreglum Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

Nánari upplýsingar um samkeppnina má finna hér.


HRINGUR OG KÚLA / ORBIS ET GLOBUS / CIRCLE AND SPHERE

VERKIÐ er grásteinskúla sem er 3m. í þvermál. Kúlunni er ætlað að standa á heimskautsbaugnum þar sem hann er á hverjum tíma, en skv. útreikningum færist hann að jafnaði um 14.5 metra á ári vegna svokallaðrar pólriðu jarðar og er nú á 66° 33.9 N. Kúlunni er velt á rétta breidd að vori ár hvert og þokast hún þannig norður af eyjunni nálægt árinu 2047. Árleg færsla er ýmist í norður eða suður og því er um mjög hægfara ferli að ræða, en um þessar mundir er hreyfingin að snúast í suður og verður svo næstu 10 árin eða svo. Þá snýst hún til norðurs þar til ekki verður komist lengra, en á stuttu árabili mun hún standa þar kyrr áður en hún tekur síðustu suður- og norðursveifluna og fer endanlega út af eyjunni

KÚLAN sýnir einungis legu heimskautsbaugsins. Sá sem gengur í kringum hana hefur farið norður fyrir heimskautsbaug og suður fyrir hann aftur. Árleg tilfærsla kúlunnar getur verið dagsettur atburður ár hvert, en þá taka eyjarskeggjar og gestir sig saman og koma henni á sinn stað með sameiginlegu átaki og nauðsynlegum hjálpartækjum. Ferill kúlunnar frá 2014 og til endaloka verður lagður með söguðum rekavið og þannig tryggt að allir komist að henni frá vegarslóðanum sem liggur út á Eyjarfót. Rekaviðarlagður stígurinn yrði að lokum það eina sem eftir væri til vitnis um heimskautsbauginn í Grímsey.

VEGARSLÓÐI
úr þorpinu og norður eftir eyjunni verður hluti verksins og gerður að góðum göngustíg. Stígurinn sýnir þannig færslu heimskautsbaugsins norður eftir eyjunni og er hann um 2.5 km. á lengd frá áningarstaðnum við flugvöllinn, en 3.7 km. frá höfninni/þorpinu, en baugurinn kom fyrst inn í þorpið um 1810 og hefur því færst þessa leið á rúmum 200 árum. Þessa færslu á heimskautsbaugnum má merkja með ártölum í rekaviðardrumba á stígnum, en með því móti stækkar það áhugaverða svæði sem gestir mundu ella fara um eyjuna og kúlan fengi hlutdeild í því stórkostlega sjónarspili sem náttúran sýnir með síbreytileika allra hluta. Allt er á hreyfingu og áhrifasvæði heimskautsbaugsins verður þannig mun stærra en einn lítill og fastur punktur.

ÁNINGARSTAÐUR
með upplýsingum um heimskautsbauginn verður gerður við flugvöllinn og hugsanlega aðrir minni á leiðinni norður eftir eyjunni. Þar má setja fram vísindalegar staðreyndir um heimskautsbauginn og hreyfingu jarðarinnar, stjörnufræði, sögu Grímseyjar og ýmislegt annað sem tengist náttúru hennar og staðsetningu. Hér er ekki gerð sérstök tillaga um þann stað eða útlit hans eða þær upplýsingar sem þar má setja fram. Hann er heldur ekki í kostnaðaráætluninni, enda lítill hluti af heildarkostnaði við verkefnið.