2.1.2014

Samkeppni | Skóli, menningarmiðstöð, sundlaug og íþróttaaðstaða í Úlfarsárdal



Nýr skóli, menningarmiðstöð, sundlaug og íþróttaaðstaða í Úlfarsárdal er viðfangsefni opinnar hönnunarsamkeppni sem Reykjavíkurborg efnir til í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Samkeppnin er tveggja þrepa og skal tillögum í fyrra þrepi skila 1. apríl,  fyrirspurnarfrestur er til 20. janúar 2014.

Samkeppnin á að fá fram áhugaverðar og vandaðar tillögur að uppbyggingu samþætts leik- og grunnskóla með aðstöðu fyrir frístunda og félagsstarf; menningarmiðstöð og almenningsbókasafn; kennslu- og almenningssundlaug og íþróttahús Fram í Úlfarsárdal, auk íbúðabyggðar.

Samkeppnin er tveggja þrepa. Fyrra þrepið er hugmyndasamkeppni sem byggir á heildarlausn mannvirkja og staðsetningu þeirra á keppnissvæðinu. Valdar verða allt að fimm tillögur til frekari úrvinnslu, en nafnleynd verður ekki rofin fyrr en lokið verður við að dæma seinna þrep keppninnar.

Keppnislýsing verður látin í té endurgjaldslaust frá og með mánudeginum 21. desember 2013 og er hægt að nálgast hana á samkeppnisvef Reykjavíkurborgar www.hugmyndasamkeppni.is en önnur samkeppnisgögn fást gegn greiðslu óafturkræfs þátttökugjalds 7.000 ísl.kr. og skráningar á www.hugmyndasamkeppni.is.

Fyrirspurnarfrestir eru tveir. Í fyrra fresti skal skila fyrirspurnum 20. janúar 2014, og í síðara fresti skal skila fyrirspurnum 17. mars 2014. Tillögum í fyrra þrepi skal skila í Borgartún 12-14, þjónustuver, kl 14:00-16:15 að íslenskum tíma þriðjudaginn 1. apríl 2014 og er miðað við að seinna þrep hefjist 1. maí 2014 og tillögum skilað inn í byrjun september 2014.

Nánari upplýsingar á samkeppnisvef Reykjavíkurborgar.