25.9.2013

Samkeppni | Skipulag og hönnun Geysissvæðisins í HaukadalMarkmið samkeppninnar er að fá fram hugmyndir um skipulag og uppbyggingu svæðisins. Geysir er einstakt náttúrufyrirbæri og frægasti goshver heims og er hverasvæðið einn fjölsóttasti ferðamannastaður á Íslandi. Samkeppnisgön verða afhent á skrifstofu AÍ, Vonarstræti 4b, milli kl. 9:00 og 13:00 virka daga frá 24. september. Skilafrestur tillagna er til 30. janúar 2014.

Áhersla er lögð á raunhæfar og spennandi tillögur um heildarlausn á aðgengi hverasvæðisins og tengingu svæðisins við nánasta umhverfi. Tillögur skulu bera með sér vandað og fallegt heildaryfirbragð sem fellur vel að umhverfinu og taki mið af helstu sérkennum svæðisins. Þrenn verðlaun verða veitt að heildarfjárhæð 8 milljónir kr.

Framkvæmdasjóður Ferðamannastaða veitti sveitarfélaginu Bláskógabyggð styrk til að halda samkeppnina. Undirbúningsnefnd vann að mótun lýsingar og dómnefnd vann síðan keppnisgögn. Samkeppnin fer fram í samvinnu við Arkitektafélag Íslands, Landeigendafélag Geysis ehf, ríkið og Félag Landslagsarkitekta og allir eiga fulltrúa í dómnefndinni. Samstarfið hefur verið mjög gefandi og skemmtilegt.

Þess er vænst að áhugafólk taki þátt í samkeppninni og að góðar hugmyndir komi um uppbyggingu og skipulag Geysissvæðisins. Eigendur eru sammála um að mikilvægt er að byggja svæðið upp og koma því í það horf að hægt verði að taka vel á móti öllum gestum sem langar til að njóta svæðisins, fegurðar þess og sögu.

Dómnefndin áætlar að kynna niðurstöður með sýningum á Geysissvæðinu og í Reykjavík í byrjun mars 2014.

Keppnislýsinginguna má finna hér.