16.8.2013

Samkeppni | Einkenni HönnunarMars 2014Kallað er eftir umsóknum hönnuða eða hönnunarteyma sem hafa áhuga á að útfæra einkenni HönnunarMars 2014. Úr umsóknum verða valdir þrír hönnuðir eða teymi til að taka þátt í lokaðri samkeppni um einkennið. Sérstaklega er hvatt til þverfaglegrar samvinnu hönnuða. Sækja þarf um þátttöku fyrir kl. 12 á hádegi þann 6. september 2013.

HönnunarMars er stærsta sameiginlega verkefni íslenskra hönnuða ár hvert og um leið stærsta innlenda og alþjóðlega kynningarverkefni Hönnunarmiðstöðvar. Næsti HönnunarMars, sá 6. í röðinni, verður haldinn dagana 27. - 30. mars 2014.

Fyrir HönnunarMars 2013 var í fyrsta sinn haldin samkeppni um einkenni hátíðarinnar og verður sami háttur hafður á fyrir HönnunarMars 2014. Einkenni HönnunarMars getur verið grafík, teikning, ljósmynd eða í raun hvaða myndheimur sem er. Skilyrðið er að hann sér einkennandi, skýr, og henti til kynningar á stórri hátíð sem þessari.

Valið á Einnkenni HönnunarMars 2014 fer þannig fram:

1. skref – Umsókn um þátttöku í lokaðri samkeppni
Hönnuðir eða hönnunarteymi lýsa áhuga sínum á að fá að taka þátt í lokaðri samkeppni um einkenni HönnunarMars 2014. Umsækjendur senda ferilsskrá og stutta skriflega lýsingu á því, hvers vegna viðkomandi vill/vilja taka þátt í verkefninu. Mikilvægt er að eitt netfang og símanúmer fylgi umsókninni. Undirstrikað skal, að í þessu skrefi er ekki verið að biðja um hugmyndir að einkenni eða kynningarefni fyrir hátíðina. Umsóknir skulu berast fyrir kl. 12 á hádegi 6. september 2013 á netfangið samkeppni@honnunarmidstod.is.

2. skref – Lokuð hugmyndasameppni
Úr innsendum umsóknum verða valdir þrír hönnuðir eða teymi til að vinna hugmyndir að einkenninu. Hver hópur fær greiddar 70.000 kr. fyrir innsendar tillögur. Hönnunarmiðstöð greiðir þar að auki 200.000 kr. fyrir tillöguna sem valin verður til notkunnar og 100.000 kr. til viðbótar fyrir frekari útfærslu. (Upphæðirnar innihalda vsk.)

3. skref – Útfærsla einkennis og kynningarefnis
Í kjölfar samkeppnarinnar verða valdir grafískir hönnuðir til að útbúa kynningarefni HönnunarMars í heild með hliðsjón af því einkenni sem þá hefur verið valið. Hér skal tekið fram að hafi hönnuður eða teymi áhuga á að vinna kynningarefnið í heild, má nefna það í innsendri umsókn í 1. skrefi.

Helstu dagssetningar:

19. ágúst – Opnað fyrir umsóknir um þátttöku.
6. september, kl. 12:00 – áhugasamir skila inn umsóknum um þátttöku, sjá 1. skref.
13. september, kl. 14:00 – fundur með völdum þátttakendum um verkefnið, sjá 2. skref.
7. október, kl. 12:00 – lokaskil á tillögum.

Stjórn og verkefnastjóri HönnunarMars 2014 velja bæði hópana úr innsendum umsóknum (1. skref) sem og tillöguna til notkunnar. Stjórnin áskilur sér rétt til að hafna öllum tillögum.

Fyrirspurnir þurfa að berast í síðasta lagi föstudaginn 30. ágúst á netfangið samkeppni@honnunarmidstod.is. Öllum spurningum verður svarað og verða svörin birt á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvar www.honnunarmidstod.is mánudaginn 2. september 2013.

Umsóknir um þátttöku sendist á samkeppni@honnunarmidstod.is fyrir 12:00 á hádegi 6. september.