20.6.2013

Samkeppni um bestu viðskiptahugmyndirnar í matvæla- og líftækniiðnaði



Matís og Landsbankinn hafa komið á fót nýsköpunarkeppni fyrir viðskiptahugmyndir, í matvæla- og líftækniiðnaði, sem byggðar eru á íslensku hráefni eða hugviti. Samkeppninni er ætlað að vera öflugur hvati við uppbyggingu fyrirtækja og þróun verkefna í matvæla- og líftækniiðnaði með það að markmiði að auka varanlega verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi.

Samkeppnin ber yfirskriftina „Þetta er eitthvað annað“ og vísar til þess að umræðu um nýjungar í atvinnulífi lýkur oft á þann hátt að „hægt sé að gera eitthvað annað“. Þetta óskilgreinda sem margir tala um en hafa ekki nafn yfir. Í þessari samkeppni verður tækifæri til að gera „eitthvað annað“.

Í verðlaun eru 1.000.000 kr. frá Landsbankanum auk aðstoðar sérfræðinga Matís við þróun viðskiptahugmyndar að upphæð 2.500.000 kr. og aðstöðu í húsakynnum Matís. Framúrskarandi viðskiptahugmyndir fá tækifæri til að kynna fyrir völdum fjárfestum.

Samhliða keppninni verður aðstandendum tíu efstu viðskiptahugmyndanna boðið upp á fræðslu um þróunar- og framleiðsluferla í matvæla- og líftækniiðnaði auk fræðslu um áætlanagerð viðskiptahugmynda og fjárfestakynningar.

Aðstandendur keppninnar ætla henni að vera öflugur hvati til uppbyggingar lítilla og meðalstórra fyrirtækja á sviði matvæla og líftækni, með það að markmiði að auka varanlega verðmætasköpun á Íslandi.

Umsóknarfrestur er til kl.17 þann 2. september 2013.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Landsbankans, hér.