11.6.2013

Samkeppni um auglýsingu gegn sóun matvælaSameinuðu þjóðirnar hleypa af stokkunum nýrri samkeppni um auglýsingu til að vekja fólk til vitundar um sóun matvæla í samvinnu við Norrænu ráðherranefndina. Keppnin er haldin til stuðnings herferðinni Think.Eat.Save.

Keppnin hófst formlega 5. júní á Alþjóðlega umhverfisdeginum sem að þessu sinni var helgaður baráttunni gegn sóun matvæla.

Fagmenn og aðrir skapandi einstaklinga eru hvattir til að búa til auglýsingu sem nota má til birtingar í dagblaði eða sem veggspjald. Markmiðið er að hvetja fólk til að draga úr sóun matvæla. Frestur til að skila inn auglýsingu rennur út 11. ágúst á miðnætti.

Fyrstu verðlaunin, Verðlaun Norrænu ráðherranefndarinnar nema 5,000 evrum og verða afhent í Kaupmannahöfn 4. október 2013. Rétt til þátttöku hafa íbúar Norðurlandanna fimm, Eystrasaltsríkjanna þriggja og þeirra héraða Rússlands sem að þeim liggja; átján ára og eldri.

Nánari upplýsingar á vefsíðu keppninnar: thinkeatsave.org