24.5.2013

Samkeppnisúrslit og rýnifundur



Miðvikudaginn 12. júní verður haldinn rýnifundur um úrslit samkeppninnar um áningarstaði Skógræktar ríkisins. Fundurinn verður haldinn í húsnæði Hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands í Þverholti 11 kl. 17.

Þann 6. júní s.l. var tilkynnt um úrslit í örsamkeppni Skógræktar ríkisins í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Tilgangur með örsamkeppni þessari var að leita tillögu að áhugaverðum áningarstað í Þjóðskóginum á Laugarvatni, sem jafnframt gæti orðið kennileiti fyrir þjóðskóga Skógræktar ríkisins víða um land. Vill Skógrækt ríkisins þakka fyrir áhugann og þær tillögur sem bárust. Ennfremur vill Skógrækt ríkisins þakka þann fjárhagsstuðning sem verkefnið hefur hlotið frá Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða.

Markmiðið keppninnar var að hanna áningarstað sem væri aðgengilegur öllum, gerði heimsóknir í skóga þægilega og áhugaverða upplifun og væri í góðri tengingu við umhverfi skóganna, gönguleiðir / skógarstíga og leiksvæði. Skyldi áningarstaðurinn vera gerður af hugkvæmni úr innlendum trjáviði, yrði hagkvæmur í uppsetningu og viðhaldi.

Margar vandaðar tillögur og vel fram settar bárust í keppnina. Almennt má segja um tillögur þátttakenda, að mikil áhersla hafi verið lögð á að hanna byggingar, sem oft voru hugsaðar sem fremur aflokuð hús frekar en skýli. Í mörgum tillögum var heldur minni áhersla lögð á útisvæði og aðlögun bygginganna að landi og umhverfi. Margar áhugaverðar byggingar eða skýli voru kynnt til sögunnar, en höfðu sumar þeirra skírskotun til annarar notkunar en umbeðinnar, að mati dómnefndar.

Dómnefnd tók fjórar tillögur til frekari skoðunar, tillögur nr. 53820, 71717, 53820 og 22838. Við nánari skoðun var það einróma niðurstaða dómnefndar að tillaga nr. 22838 skyldi hljóta fyrstu verðlaun, að upphæð 1. milljón kr. Það er niðurstaða dómnefndar að mæla með því að sú tillaga verði byggð í skóginum á Laugarvatni, eftir frekari úrvinnslu á athugasemdum í dómnefndaráliti. Ákveðið var að veita tillögu nr. 71717 önnur verðlaun, að upphæð 400 þúsund kr og tillögum nr 80123 og 53820 viðurkenninguna “athyglisverð tillaga”.

1.verðlaun
Tillaga auðkennd nr. 22838
Höfundar: Arkís arkitektar ehf. Birgir Teitsson arkitekt FAÍ, FSSA, Arnar Þór Jónsson arkitekt FAÍ, FSSA. Aðstoð við tillögugerð: Sara Axelsdóttir arkitekt.


Heildaryfirbragð tillögu er mjög gott og skýrt fram sett. Skírskotun til fyrri tíma byggingarhefðar er skemmtileg og vel útfærð. Eldaskáli, salernisaðstaða, útikennsluaðstaða og leiksvæði mynda samfellda heild. Tillagan vekur strax áhuga fyrir m.a. einfaldleika og sveigjanleika. Efnisnotkun er hefðbundin og uppbygging auðleyst. Stærð trjábola þarf að vísu skoða og erfitt gæti reynst að útvega efni í þessum stærðum í íslenskum skógum. Byggingin virðist óþarflega efnismikil og landfrek. Það mætti hugsa sér að minnka byggingar eins og tillöguhöfundar reyndar sýna í skýringarmyndum. Skorsteinn virðist yfirþyrmandi – reyklosun mætti leysa á einfaldari hátt. Afstöðumyndin sýnir of lítinn hluta umhverfisins og merking mælikvarða er röng. Aðalaðkoma frá bílastæðum er góð en síðri frá Dalbraut. Skoða þarf notkun trépalla með tilliti til viðhalds.

2. verðlaun
Tillaga auðkennd nr. 71717
Höfundar: Hornsteinar arkitektar.


Heildaryfirbragð tillögunnar er gott. Aðgengismál eru vel leyst og neðra stígakerfi myndar formræna heild. Stígurinn upp að efri áningarstað er þó óþarflega brattur. Byggingum er vel fyrir komið í landinu þó virðist liggja beint við að stilla betur saman hæð bílastæðis og áningarstaðar með tilliti til aðgengis fyrir alla. Útikennslusvæði tekur mið af landhalla á skemmtilegan hátt. Þrívíddarmyndir af bálskýli gefa hugsanlega til kynna aðra notkun en þá sem um ræðir. Efnisnotkun mjög áhugaverð og ber vott um hugkvæmni og frumleika. Op eða raufar eru skemmtileg útfærsla með fjölbreytilegum möguleikum. Bálskýlið virðist geta þjónað sínu hlutverki vel og veita gott skjól fyrir veðri. Lausn burðarvirkis á mótum þaks og bogadreginna veggja er óljós. Hugmyndir um sveigjanleika í rýmismynd er athyglisverð.

Athyglisverð tillaga
Tillaga auðkennd nr. 53820
Höfundar: Hanna Kristín Birgisdóttir arkitekt MAA og Henný Helga Hafsteinsdóttir arkitekt MAA

Teikningar eru fallegar og skýrar. Greinargerð með tillögunni er skemmtileg og lýsir á lifandi hátt upplifun af skógaráningu. Í tillögunni er aðgengi fyrir alla ekki sýnt. Leiksvæði eru ekki nema að litlu leyti útfærð. Fyrirkomulag í bálskýli býður ekki upp á sveigjanleika í notkun og hæð þess er full mikil. Notkun á sama efni í þök og veggi undirstrikar form bygginganna sem er áhugavert. Þjónustuhús með kennsluaðstöðu innandyra er viðbót sem ekki var beðið um í keppnislýsingu. Tengsl milli byggingasvæðis stíga, leiksvæðis og útikennslu eru óljós. Skoða þarf notkun trépalla með tilliti til viðhalds.

Athyglisverð tillaga
Tillaga auðkennd nr. 80123
Höfundar: Arkiteó og Suðaustanátta. Einar Ólafsson arkitekt FAÍ, Emil Gunnar Guðmundsson, landslagsarkitekt FÍLA, Helena Björgvinsdóttir arkitekt, Magdalena Sigurðardóttir arkitekt, Valdemar Harðarson Steffensen arkitekt.


Heildaryfirbragð tillögunnar er gott. Greinargerð er lifandi og ljós. Tillöguhöfundar hafa lifað sig vel inn í hvernig má nýta upplifun á staðnum, t.d. í leik. Sjónræn opnun skýlisins til allra átta er skemmtileg en tengsl við útikennslu og leiksvæði eru ósannfærandi. Ekki er orðið við kröfum um aðgengi fyrir alla og aðkoman er ekki vel leyst. Ekki er að öllu leyti samræmi milli grunn- og útlitsmynda. Bálskýli og þjónustuhús eru af hentugri stærð og í góðum hlutföllum. Reykræsting virðist ekki ganga upp án vélræns tækjabúnaðar. Notkun hleðsluveggja er ekki til bóta, síst með tilliti til tengsla við útisvæði.

Formaður dómnefndar var Hreinn Óskarsson skógfræðingur og með honum í dómnefnd voru Harpa Stefánsdóttir arkitekt FAÍ og Ragnar Frank Kristjánsson landslagsarkitekt FÍLA. Trúnaðarmaður var Haraldur Helgason arkitekt FAÍ og RItari dómnefndar Hallmar Sigurðsson framkvæmdastjóri AÍ.

Stefnt er að sýningu á Laugarvatni í sumar á öllum tillögum sem bárust og verður nánar tilkynnt um það og væntanlegan rýnifund fljótlega.