12.6.2013

Verðlaun og viðurkenning til Íslands úr ADC*E Awards



Sigríður Rún Kristinsdóttir hlaut nemendaverðlaunin í ADC*E Awards fyrir útskriftarverkefni sitt, Anatomy of letters og Ármann Agnarsson hlaut viðurkenningu fyrir House Project, bók um verk Hreins Friðfinnssonar útgefna af Crymogeu í samstarfi við Hafnarborg.


Verðlaun Art Directors Club of Europe voru veitt á dögunum og eru þau stærst og virtust á sviði grafískrar hönnunar og auglýsingagerðar í Evrópu. Gullverðlaun og viðurkenning féllu íslenskum grafískum hönnuðum í skaut og er mikill heiður að vinna til þeirra. Verðlaunin bera vott þeirrar miklu grósku sem ríkir í grafískri hönnun á Íslandi.

Sigríður Rún Kristinsdóttir hlaut nemendaverðlaunin í ADC*E Awards fyrir Anatomy of Letters en verkið var útskriftarverkefni Sigríðar úr Listaháskólanum vorið 2012. Úr herbúðum ADC*E fréttist að mat dómnefndar hafi verið einróma, enda verkið unnið af einstöku næmi. Anatomy of Letters hlaut nemendaverðlaun í FÍT keppninni 2013 en verðlaunin voru veitt í aðdraganda HönnunarMars.

Ármann Agnarsson hlaut viðurkenningu fyrir hönnun sína á bókinni House Project. Bókin gerir skil verkum myndlistarmannsins Hreins Friðfinnssonar, Hús eða House Project: First House, Second House, Third House sem sýnd voru í Hafnarborg vorið 2012. Bókin er gefin út af Hafnarborg í samstarfi við Crymogeu bókaútgáfu og prentuð hjá Prentmeti en í hönnuninni endurspeglar Ármann myndlist Hreins og hlaut fyrir verkið aðalverðlaun í FÍT keppninni 2013.

Art Directors Club of Europe, eru samtök félaga evrópskra hönnuða og auglýsingagerðarfólks. Verðlaun ADC*E hafa verið veitt árlega frá 1990 en keppnin er sú stærsta og virtasta á sviði grafískrar hönnunar og auglýsingagerðar í Evrópu. Þátttökurétt hafa þau verkefni sem hlotið hafa verðlaun eða viðurkenningar í heimalöndum sínum. Verðlaunaverk í ADC*E Awards eru send áfram í The Cup, en þar keppa þau við bestu verk úr öðrum heimsálfum.

Félag íslenskra teiknara er aðili að ADC*E og heldur utan um íslenska þátttöku í keppninni en þess má til gamans geta að félagið fagnar í ár 60 ára afmæli.

Nánari umfjöllun um Anatomy of Letters, má finna á bloggi Hönnunarmiðstöðvar, hér.
Nánari upplýsingar um House Project má finna hér.
Nánar um ADC*E Awards 2013 hér.