25.5.2013

Samkeppnisúrslit | Listskreytingar í fangelsinu á Hólmsheiði



Anna Hallin og Olga S. Bergmann hlutu fyrstu verðlaun í samkeppni um listskreytingu fangelsis á Hólmsheiði. Tólf tillögur bárust í samkeppnina og verður verðlaunatillagan útfærð en jafnframt voru veitt verðlaun fyrir 2. og 3. sæti.

Fyrstu verðlaun hlutu þær Anna Hallin og Olga S. Bergmann. Tillaga þeirra heitir Aboretum – trjásafn og er margþætt listaverk, þyrping 9 tegunda trjáa og ,,fuglahótel” með tilheyrandi fuglahúsum sem unnin eru í samvinnu við tréverkstæðið á Litla-Hrauni. Þær hljóta 500 þúsund krónur í verðlaun. Dómnefnd segir hana falla vel að umhverfi og hugmyndafræði fangelsisins, hafa listrænt og fagurfræðilegt gildi og sé innan kostnaðarviðmiða.

Önnur verðlaun, kr. 300 þúsund, hlaut tillaga Kristins E. Hrafnssonar, Fuglahús. Hún gerir ráð fyrir 28 fuglahúsum og 10 fuglaböðum og gjafastöndum víðs vegar í inni- og útigörðum fangelsisins.

Þriðju verðlaun, kr. 200.000, hlaut tillaga Brynhildar Þorgeirsdóttur, Að flytja fjöll. Það er keilulagaður skúlptúr úr 12 steinsteyptum einingum.

Innanríkisráðuneytið efndi til opinnar samkeppni um listskreytingu í nýju fangelsi á Hólmsheiði í Reykjavík í mars 2013 í samræmi við lög nr. 46/1998 um listskreytingar opinberra bygginga. Ráðuneytið fól Framkvæmdasýslu ríkisins að hafa umsjón með samkeppninni fyrir sína hönd. Samstarfsaðili var Listskreytingasjóður ríkisins fyrir hönd Sambands íslenskra myndlistarmanna/SÍM. Óskað var eftir tillögum að listaverkum á völdum útisvæðum fangelsins.

Í dómnefnd sátu Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður fyrir hönd innanríkisráðuneytis, Björn Guðbrandsson, arkitekt hússins, Guðrún Edda Guðmundsdóttir, frá Fangelsismálastofnun, og myndlistarmennirnir Þóra Sigurðardóttir og Jón Bergmann Kjartansson/Ransu sem voru tilnefnd af SÍM.